Enski boltinn

„Við erum ekki að ein­beita okkur að titilbaráttu“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, fór fimmtán leiki í röð í öllum keppnum án taps en hefur nú tapað tveimur leikjum í röð.
Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, fór fimmtán leiki í röð í öllum keppnum án taps en hefur nú tapað tveimur leikjum í röð. Michael Regan/Getty Images

Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, þurfti að sætta sig við annað deildartapið í röð í gærkvöldi. Hann var svekktur með færanýtingu sinna manna en segir liðið í góðri stöðu eftir fyrri helming tímabilsins, þó einbeitingin sé ekki á titilbaráttu.

Frekar aumt brot

Ipswich komst yfir eftir tíu mínútna leik þegar Filip Jörgensen, sem fékk tækifæri í marki Chelsea, braut á Liam Delap innan teigs. Delap tók spyrnuna sjálfur og skoraði þó að Jörgensen færi í rétt horn.

Maresca sagði brotið hafa verið frekar „aumt“ (e. soft), en hann þyrfti að sætta sig við niðurstöðu dómarans. Aðallega hafi hans menn hafi átti að gera betur í leiknum.

„Þetta var furðulegur leikur, við sköpuðum fullt af færum og hefðum getað skorað en þeir björguðu á línu eða með frábærum markvörslum. Við hefðum getað gert margt betur, og varist betur á ákveðnum augnablikum,“ sagði Maresca í viðtali við BBC eftir leik.

Fjórar breytingar í gær og fjórða sæti eftir fyrri hluta móts

Chelsea býr yfir gríðarstórum leikmannahópi sem hefur farið fram úr væntingum margra það sem af er tímabili, en hefur nú aðeins tekið eitt stig úr síðustu þremur deildarleikjum.

„Við gerðum fjórar breytingar frá síðasta leik því þeir leikmenn áttu allir skilið að spila. Nú höfum við klárað fyrri helming tímabilsins, það bjóst enginn við því að við yrðum á þessum stað. Við erum í góðri stöðu en getum gert margt betur. Þetta er langhlaup.“

Liðið situr nú í fjórða sæti deildarinnar þegar mótið er hálfnað, tíu stigum á eftir toppliði Liverpool. Næsti leikur Chelsea verður á nýju ári, 4. janúar gegn Crystal Palace.

„Við einbeitum okkur bara að einum leik í einu. Við erum ekki að einbeita okkur að titilbaráttu eða einhverju svoleiðis,“ sagði Maresca að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×