Enski boltinn

Valdi ekki Salah í lið ársins hingað til

Sindri Sverrisson skrifar
Mohamed Salah er búinn að skora 17 mörk og leggja upp 13 í ensku úrvalsdeildinni í vetur, í aðeins 18 leikjum.
Mohamed Salah er búinn að skora 17 mörk og leggja upp 13 í ensku úrvalsdeildinni í vetur, í aðeins 18 leikjum. Getty

Mohamed Salah hefur að flestra mati átt algjörlega stórkostlega leiktíð hingað til með toppliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en Tim Sherwood virðist sjá hlutina öðruvísi.

Sherwood, sem er fyrrverandi stjóri Aston Villa og Tottenham, var sá eini af fjórum sérfræðingum Sky Sports' Soccer Special sem ekki valdi Salah í úrvalslið fyrri hluta tímabilsins.

Sú regla var reyndar í valinu að menn máttu bara velja einn leikmann úr hverju liði.

Sherwood valdi Trent Alexander-Arnold sem fulltrúa Liverpool og var með þá Alexander Isak, Bukayo Saka og Jarrod Bowen í fremstu víglínu.

Sherwood tók sér jafnframt það bessaleyfi að hafa Matheus Cunha, sóknarmann Wolves, á miðjunni með Dejan Kulusevski og Cole Palmer. Lið hans má sjá hér að neðan.

Salah hefur skorað sautján mörk hingað til í úrvalsdeildinni og er þremur mörkum fyrir ofan Erling Haaland í baráttunni um markakóngstitilinn. Hann er auk þess með flestar stoðsendingar á tímabilinu eða þrettán, þremur fleiri en næsti maður sem er Saka.

Salah hefur því komið með mjög afgerandi hætti að 30 af 45 mörkum Liverpool sem er með sex stiga forskot á toppi deildarinnar, og leik til góða.

Alexander-Arnold hefur þó einnig átt gott tímabil en þeir Salah, ásamt Virgil van Dijk, verða að óbreyttu samningslausir í sumar. Salah lýsti því yfir í gær í viðtali við Sky Sports að þetta væri síðasta ár hans með Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×