Enski boltinn

Segir Trent frekar eiga heima í Tranmere en Real Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Trent Alexander-Arnold í baráttunni við Matthijs de Ligt.
Trent Alexander-Arnold í baráttunni við Matthijs de Ligt. Liverpool FC/Getty Images

Sparkspekingurinn Roy Keane er að venju með munninn fyrir neðan nefið og hann lét Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörð Liverpool, heyra það eftir 2-2 jafntefli liðsins gegn Manchester United. Trent er sagður nálægt því að ganga í raðir Real Madríd á frjálsri sölu.

Það hefur mikið verið ritað um framtíð Trent undanfarnar vikur en leikmaðurinn er talinn vera við það að samþykkja samningstilboð Evrópu- og Spánarmeistara Real Madríd. Samningur hans rennur út næsta sumar og því má hann semja við lið utan Englands. Liverpool hefur hins vegar boðið honum nýjan og betri samning en leikmaðurinn virðist ekki viss hvað skal gera.

Það sama verður sagt um varnarleik hans í leik helgarinnar gegn Man United. Í fyrri hálfleik var hann alls ekki í línu þegar varnarlína Liverpool lyfti upp og því slapp Rasmus Höjlund í gegn.

Sem betur fer fyrir Trent þá er danski framherjinn með sjálfstraustið niðri í kjallaranum og Alisson, markvörður Liverpool, frábær einn á einn. Þegar Trent gleymdi sér á nýjan leik í síðari hálfleik var hann ekki jafn heppinn. Aftur hélt hann ekki línu og Lisandro Martínez kom gestunum yfir. Að loknum leik lét Keane, sem er fyrrum fyrirliði Man Utd, gamminn geisa.

„Varnarlega hefur Trent verið skelfilegur. Við tölum um hversu frábær hann er en varnarleikurinn hans er eins og eitthvað hjá grunnskólakrakka. Hann er orðaður við Real Madríd en ætti að vera orðaður við Tranmere Rovers miðað við spilamennskuna,“ sagði Keane um enska landsliðsmanninn eftir stórleik helgarinnar.

Tranmere Rovers er í 20. sæti ensku D-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×