Erlent

Flokkur Fara­ge fast á hæla Verka­manna­flokksins

Kjartan Kjartansson skrifar
Nigel Farage og Umbótaflokkur hans virðast hitta í mark hjá breskum kjósendum um þessar mundir.
Nigel Farage og Umbótaflokkur hans virðast hitta í mark hjá breskum kjósendum um þessar mundir. Vísir/EPA

Umbótaflokkur Nigels Farage, eins helsta hvatamanns Brexit, mælist næststærsti stjórnmálaflokkur Bretlands, og fast á hæla Verkamannaflokksins í nýrri skoðanakönnun. Aðeins rétt rúmur helmingur kjósenda Verkamannaflokksins segist myndu kjósa flokkinn aftur ef kosið yrði nú.

Aðeins munar einu prósentustigi á fylgi Verkamannaflokksins og Umbótaflokksins (e. Reform) í könnun Yougov, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Verkamannaflokkurinn mælist með 26 prósent, Umbótaflokkurinn 25 prósent og Íhaldsflokkurinn 22 prósent.

Umbótaflokkurinn bætir gríðarlega við sig frá kosningunum í júlí en þá hlaut hann fjórtán prósent atkvæða. Hann er nú með fimm þingmenn af 650 á breska þinginu. Hann mældist stærri en Íhaldsflokkurinn í sumum könnunum fyrir kosningar en það gekk ekki eftir þegar talið hafði verið upp úr kjörkössunum.

Að sama skapi tapar Verkamannaflokkurinn töluverðu fylgi frá kosningum en hann hlaut 33,7 prósent atkvæða og hreinan þingmeirihluta. Flokkurinn hefur átt í vök að verjast frá kosningum, meðal annars vegna umdeildra skattahækkanaáforma. Aðeins 54 prósent kjósenda flokksins í kosningunum segjast myndu kjósa hann í dag.

Þrátt fyrir fylgisaukninguna hefur Umbótaflokkurinn ekki siglt lygnan sjó upp á síðkastið. Elon Musk, milljarðamæringur og nánasti ráðgjafi Donalds Trump verðandi Bandaríkjaforseta um þessar mundir, lýsti yfir stuðningi við flokkinn en vill koma Farage frá sem leiðtoga. 

Farage stofnaði flokkinn árið 2018 en þá hét hann Brexit-flokkurinn. Hann átti meðal annars sæti á Evrópuþinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×