Enski boltinn

Arteta um ó­geðs­legu skilaboðin: „Verður að draga línu í sandinn“

Sindri Sverrisson skrifar
Mikel Arteta vill að séð verði til þess að netníði á borð við það sem Havertz-hjónin urðu fyrir á sunnudag verði útrýmt.
Mikel Arteta vill að séð verði til þess að netníði á borð við það sem Havertz-hjónin urðu fyrir á sunnudag verði útrýmt. Getty/Neal Simpson

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, kallar eftir því að mun harðar verði tekið á netníði eins og því sem Sophia, eiginkona Kai Havertz, varð fyrir á sunnudaginn.

Sophia birti á Instagram viðurstyggileg skilaboð sem hún fékk send á sunnudag, í kjölfar bikarleiks Arsenal og Manchester United, þar sem vítaspyrna Havertz var varin í sigri United í vítaspyrnukeppni. Í einum skilaboðunum var Sophiu, sem er ólétt, óskað fósturláts.

„Þetta er ótrúlegt. Við verðum að gera eitthvað í þessu, því það hefur alvarlegar afleiðingar að sætta sig við þetta og þagga þetta niður. Þetta er eitthvað sem við verðum að útrýma,“ sagði Arteta þegar hann var spurður út í málið á blaðamannafundi í dag, fyrir stórleikinn við Tottenham annað kvöld.

„Þetta er ekki svona í neinum öðrum atvinnugeira,“ sagði Arteta og rifjaði upp að þann 27. desember hefði Havertz skorað sigurmarkið í 1-0 sigri gegn Ipswich og allur leikvangurinn sungið gleðisöngva honum til heiðurs:

„Þetta var fyrir tuttugu dögum. Hvert er sjónarhornið hérna? Við berum öll ábyrgð. Þið [blaðamenn] berið ábyrgð og allir bera ábyrgð á því hvernig þeir tala. Við getum ekki bent í aðra átt. Þetta er mjög alvarlegt mál og það hefur áhrif á hann, mig og alla í þessum geira. Við getum sætt okkur við ýmislegt og sagt að þetta sé grín en það eru ákveðin mörk. Það verður að draga línu í sandinn,“ sagði Arteta og bætti við:

„Við eyðum miklu púðri í að skoða tæknina og hvað gæti komið næst í fótbolta. Það næsta í fótbolta er að svona lagað ætti að vera bannað. Að þetta geti ekki gerst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×