Rúmlega 30 manns voru saman komin á barnum Johann Franck sem er stór skemmti- og veitingastaður í miðborg Zagreb. Þar munu íslenskir stuðningsmenn koma saman fyrir alla leiki mótsins en bæði riðlakeppnin og milliriðilinn munu fara fram hér í borg.
Sérsveitin, sem svo dyggilega hefur stutt við strákana okkar í gegnum árin, ætlar að spara kraftana til að byrja með. Meðlimir Sérsveitarinnar stefna þó, samkvæmt Facebook-síðu hópsins, á að mæta til Zagreb á laugardaginn og beint í höllina til að sjá leikinn við Kúbverja.
Á mánudaginn, fyrir leikinn við Slóvena, verður svo blásið í herlúðra með öflugri upphitun á Johann Franck og má búast við því sama á leikjunum í milliriðli, þegar stór hópur Íslendinga bætist við stuðningsmannasveitina.
Þeir allra hörðustu voru mættir strax í fyrsta leik og Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var mættur á Johann Franck og náði myndum af þeim sem ætla sér á leik kvöldsins.
Leikur Íslands og Grænhöfðaeyja hefst klukkan 19:30 og verður lýst beint á Vísi. Hann verður svo gerður rækilega upp hér á vefnum.













