Handbolti

„Þeir eru ekki með lé­lega handboltamenn“

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson átti stórgóðan leik í kvöld.
Orri Freyr Þorkelsson átti stórgóðan leik í kvöld. VÍSIR/VILHELM

„Það var hrikalega skemmtilegt að byrja þetta mót, og á svona sigri,“ sagði hornamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson eftir frábæran fyrsta leik sinn á HM í handbolta.

Orri var öryggið uppmálað í sigrinum stóra gegn Grænhöfðaeyjum í kvöld, 34-21, og nýtti öll átta skot sín, þar af þrjú vítaköst:

„Maður fékk slatta af færum og það er alltaf skemmtilegt. Það gerist ekki betra en þegar maður fær svolítið af færum og ég fékk þau í dag,“ sagði Orri við Henry Birgi Gunnarsson í Zagreb.

Orri segir það engan veginn hafa verið erfitt að gíra sig upp í leik við Grænhöfðaeyjar, þó að liðið hafi aldrei náð neinum árangri á HM:

„Alls ekki. Við erum búnir að vera mjög einbeittir síðan við byrjuðum 2. janúar, og ég tel það mikilvægt. Við erum betra lið en þeir eru ekki með lélega handboltamenn. Geta skorað mikið af mörkum, með langskotum og eru líkamlega sterkir. Við mættum bara klárir í þennan leik. Döluðum kannski aðeins í seinni hálfleik en heilt yfir kláruðum við þetta vel,“ sagði Orri.

Þeir Bjarki Már Elísson skiptu leiknum í kvöld á milli sín og Orri gerir engar sérstakar kröfur um að spila meira:

„Við verðum bara að sjá. Ég er alltaf klár þegar kallið kemur og að sjálfsögðu vill maður alltaf spila.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×