Ísland slakaði aldrei á klónni í kvöld og vann með 21 marks mun, 40-19. Eftir tvo auðvelda mótherja bíður því Íslands nú úrslitaleikur í G-riðli við Slóveníu á mánudagskvöld.
„Við ætluðum bara að vinna leikinn eins stórt og við gátum. Við ætluðum ekki að slaka neitt á og auðvitað kemur maður bara rétt inn stemmdur og reynir að auka forskotið,“ sagði Þorsteinn Leó sem kom af krafti inn í seinni hálfleikinn.
Þorsteinn skoraði úr öllum fimm skotum sínum í leiknum: „Þetta var fínt í dag og við sjáum til hvernig þetta heldur áfram.“
„Þetta er búið að vera fínt [hjá liðinu]. Við höfum spilað fínan handbolta og þurfum að halda því áfram. Slóvenar eru auðvitað töluvert betri en þessir andstæðingar og við þurfum að vera vel klárir og negla á þetta,“ sagði Þorsteinn, spenntur fyrir mánudeginum:
„Þeir eru með mjög sterkt lið, og við líka. Þetta verður hörkuleikur og við þurfum að mæta klárir í hann.“