Fótbolti

Slags­mál í leik­mannagöngunum eftir sigur Barcelona í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raphinha fagnar hér sigurmarki sínu ásamt liðsfélögum sínum í Barcelona. Skömmu síðar var leikurinn flautaður af.
Raphinha fagnar hér sigurmarki sínu ásamt liðsfélögum sínum í Barcelona. Skömmu síðar var leikurinn flautaður af. Getty/Eric Verhoeven

Það sauð upp úr eftir magnaðan leik Benfica og Barcelona í Meistaradeildinni í gærkvöldi. Barcelona lenti 3-1 og 4-2 en skoraði þrjú síðustu mörk leiksins þar á meðal sigurmarkið á sjöttu mínútu í uppbótatíma.

Barcelona vann leikinn því 5-4 og tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en heimamenn eru í átjánda sæti og hvergi nærri öryggir áfram.

Spænskir og portúgalskir miðlar segja frá því að það leikmenn liðanna hafi lent saman og það hafi verið slagsmál í leikmannagöngunum.

Svo slæmt var ástandið að lögreglan þurfti að skilja á milli manna.

Raphinha, skoraði sigurmarkið í leiknum, en hann staðfesti lætin í viðtali eftir leikinn.

„Ég er manneskja sem bregst við öllu. Þegar ég yfirgaf völlinn þá var fólk að smána og svívirða mig. Ég svaraði þeim á móti. Ég veit að ég á ekki að gera það en ég svaraði þeim bara í sömu mynt. Í lokin varð æsingurinn of mikill,“ sagði Raphinha.

„Benfica leikmennirnir urðu líka aðeins of æstir. Þeir hefðu átt að gera sér betur grein fyrir aðstæðunum en þeir völdu það að svívirða mig í staðinn,“ sagði Raphinha við Mundo Deportivo.

Endir leiksins var afar svekkjandi fyrir heimamenn. Þeir vildu fá víti undir lokin en ekkert var dæmt og í staðinn brunaði Barcelona upp völlinn og skoraði sigurmarkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×