Upp­gjörið: Njarð­vík - Stjarnan 101-93 | Grænar betri þegar mest á reyndi

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Njarðvík þurfti að hafa fyrir sigrinum.
Njarðvík þurfti að hafa fyrir sigrinum. vísir/Jón Gautur

Njarðvík tók á móti Stjörnunni í IceMar-höllinni í Njarðvík þegar Bónus deild kvenna hélt áfram göngu sinni í kvöld. Bæði lið voru á sigurbraut fyrir leik kvöldsins og vonuðust til þess að halda sér á þeirri braut. Það var hinsvegar Njarðvík sem hafði betur eftir framlengingu með átta stigum 101-93.

Stjarnan tók uppkastið og átti fyrstu sókn leiksins. Það var hins vegar Njarðvík sem voru fyrstar á blað þegar Hulda María Agnarsdóttir setti niður þrist til þess að koma leiknum af stað.

Njarðvík byrjaði betur og náði flottu áhlaupi sem bjó til fínt forskot inn í leikhlutann. Stjarnan var hins vegar ekkert á þeim buxunum að leggja árar í bát þrátt fyrir smá mótlæti í byrjun. Hægt og rólega byrjaði Stjarnan að ná stjórn á leiknum og unnu sig vel inn í leikinn aftur. Ana Paz var þar öflug. Það var þó Njarðvík sem leiddi með minnsta mun eftir fyrsta leikhluta 24-23.

Stjarnan hélt áfram í öðrum leikhluta að spila vel og náðu forystu snemma í öðrum leikhluta. Það var mikill meðbyr í Stjörnuliðinu fyrst um sinn sem gerði Njarðvík erfitt fyrir.

Brittany Dinkins steig þá upp fyrir Njarðvík og setti nokkur stig í röð til þess að kveikja undir Njarðvíkurliðinu. Smátt og smátt náðu Njarðvík stjórninni aftur og snéri leiknum sér í hag. Brittany Dinkins var þar fremst í flokki og var kominn með 18 stig á töfluna þegar liðin fór inn í hálfleik. Njarðvík leiddi þar 47-39.

Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og hlupu yfir Njarðvík. Stjarnan skoraði sex fyrstu stigin sem þvingaði Njarðvík til þess að taka leikhlé og fara yfir stöðuna þegar tæp ein og hálf mínúta var búin af seinni hálfleik.

Leikhléið virðist hafa skilað sínu því Njarðvík snar batnaði eftir þetta leikhlé og náði fram vopnum sínum aftur. Það voru ágætis jafnræði með liðunum lengst af þó Njarðvík hafi verið skrefi framar og á tíma náð ellefu stiga forskoti. Stjarnan náði frábæru áhlaupi fyrir lok leikhlutans en það var Njarðvík sem leiddi 69-65 eftir þriðja leikhluta.

Það var nokkuð ljóst að fjórði leikhluti yrði í járnum og það yrði ekkert gefið eftir. Bæði lið þurftu að hafa vel fyrir sínum stigum. Stjarnan spilaði virkilega vel og náðu að halda góðri pressu á Njarðvík. Ena Viso virtist vera að fara langt með þetta fyrir Njarðvík þegar það var stutt eftir en Denia Davis- Stewart jafnaði leikinn með örfáar sekúndur eftir. Njarðvík hljóp upp með boltann en kastaði honum útaf og því var allt jafnt þegar 40 mínútur slógu á klukkuna 84-84.

Framlengingin byrjaði brösulega en Stjarnan átti fyrsta höggið þegar Katarzyna Trzeciak setti þrist. Það leið ekki á löngu þar til Brittany Dinkins var búin að svara í sömu mynt og við það fór allt að snúa hjá Njarðvík sem setti upp litla skotsýningu sem Stjarnan réði illa við. Njarðvík reyndist sterkari í framlengingunni og unnu átta stiga sigur 101-93.

Atvik leiksins

Brittany Dinkins hlóð í sýningu í kvöld. Dró Njarðvíkurliðið áfram og í framlengingunni byrjaði hún skotsýninguna sem á endanum sigldi Stjörnunni.

Stjörnur og skúrkar

Brittany Dinkins er hálfgert svindl í þessari deild. Þvílíkur fengur fyrir Njarðvík en hún hefur verið hreint stórkostleg í vetur fyrir Njarðvík. Var með þrefalda tvennu en hún skoraði 48 stig fyrir Njarðvík í kvöld, tók tíu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.

Ana Paz var öflug í liði Stjörnunnar með 23 stig líkt og Katarzyna Trzeciak. Ég verð samt að nefna Berglindi Kötlu Hlynsdóttur sem kom virkilega skemmtilega inn í þessum leik og kom mér skemmtilega á óvart hvað hún var óhrædd að láta vaða.

Dómarinn

Eins og alltaf þá er alltaf hægt að safna saman fullt af smávægilegum atriðum. Liðin voru stundum ekkert sammála því sem var kallað eða ekki kallað á vellinum en það er partur af þessu. Mitt mat er að þeir stóðu sig bara þokkalega.

Stemingin og umgjörð

Umgjörð í Njarðvík er alltaf upp á 10,5! Hefði viljað sjá fleiri í stúkunni en það er erfitt að keppa við Íslenska landsliðið á HM í handbolta svo ég gef þessu því smá slaka hér í kvöld. Fullt kredit á þá sem mættu.

„Þessi stig eru virkilega stór fyrir okkur“

„Fólk býst við því þegar þú spilar við sum lið að það verði auðvelt en það er það ekki. Þú berð virðingu fyrir öllum og í kvöld þá þurftum við að hafa fyrir þessu,“ sagði Brittany Dinkins leikmaður Njarðvíkur sem var á eldi í kvöld.

Njarðvík náði á kafla góðu forskoti en misstu það niður í jafntefli undir lok leiks og vildi Brittany Dinkins meina að varnarleikurinn hefði fallið svolítið saman.

„Það var í raun bara slakur varnarleikur. Halda manninum fyrir framan þig og við ræddum það þegar þjálfarinn tók leikhlé. Við gáfum tíu stig frá okkur og það má ekki gerast,“

Brittany Dinkins var sjálf framúrskarandi í leiknum í kvöld og var með þrefalda tvennu, þar af 48 stig.

„Liðið leyfði mér að leiða. Þau búast við því og við erum með væntingar fyrir því svo það var ekkert annað að gera en að mæta til leiks. Ég er þakklát fyrir þjálfaran og liðið því ekkert af þessu getur gerst án þeirra. Ef þau taka ekki „screen“ eða senda mér boltann og svoleiðis hluti svo fullt kredit á liðsfélagana og þjálfarana fyrir að leyfa mér að vera ég í þessu liði,“ sagði Dinkins.

Brittany Dinkins sagðist finna það fljótt að þetta væri að fara vera hennar leikur.

„Auðvitað. Þú veist alltaf þegar þú ert að hitta á gott kvöld. Ég vissi ekki að ég myndi vera svona frábær fyrir aftan þriggja stiga línuna því ég hef átt í smá basli þar en mér leið mjög vel komandi inn í þennan leik,“

Virkilega sterkur sigur hjá Njarðvík í kvöld og tók Brittany Dinkins undir það að þetta hafi verið stór tvö stig.

„Þau eru risastór [stigin tvö]. Við höfum tapað fyrir sumum liðum sem særðu okkur en okkar plan er að verða í topp þrem. Við verðum að taka hvern leik eins og við höfum verið að gera á tímabilinu bara einn í einu og ekki vera að horfa á töfluna. Við tökum bara einn dag í einu og einn leik í einu. Þessi stig eru því virkilega stór fyrir okkur,“ sagði Brittany Dinkins.

„Var farin að hlæja þegar hún skaut“

„Ánægður með rosalega margt í þessum leik. Hvernig við komum inn í seinni hálfleikinn, hvernig við börðumst til baka og gerðum margt rosalega vel. Við bara gátum ekki stoppað [Brittany] Dinkins. Hún var helvíti erfið við að eiga í dag,“ sagði Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfari Stjörnunnar eftir tapið í kvöld.

Brittany Dinkins var stórkostleg í liði Njarðvíkur með þrefalda tvennu, þar af 48 stig og því gríðarlega erfið við að eiga í kvöld.

„Við leyfum henni að komast svolítið í gang í fyrri hálfleik með því að vera svolítið passívar á henni sem gerði mig alveg brjálaðan þarna í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik reynum við að vera aðeins aggressívari og gerum betur en hún var þá kominn átta af níu í þristum og var farinn að hlæja þegar hún skaut. Þetta er bara stórkostlegur leikmaður og erfitt að eiga við hana,“ sagði Ólafur Jónas.

Þrátt fyrir tapið í kvöld var margt jákvætt hægt að taka úr þessum leik.

„Já auðvitað, við erum ekki með Kollu og ekki með Diljá. Við gerum samt margt mjög vel. Það er samt líka margt sem við hefðum getað gert betur augljóslega en mér fannst við alveg geta tekið þennan leik. Stundum er þetta svona og við urðum svolítið staðar á móti svæðinu en vorum samt búnar að undirbúa það fyrir hvað við ætluðum að gera á móti svæðinu. Við hikuðum svolítið og mér fannst við hefðum getað gert betri og beittari árásir á svæðisvörnina því hún var vel opin. Við vorum bara ekki að hlaupa þetta rétt,“ sagði Ólafur Jónas.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira