Handbolti

Orri Freyr er Orri ó­stöðvandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson hefur skorað sextán mörk á HM.
Orri Freyr Þorkelsson hefur skorað sextán mörk á HM. vísir/vilhelm

Sögupersónan vinsæla, Orri óstöðvandi, er nefnd í höfuðið á Orra Frey Þorkelssyni, landsliðsmanni í handbolta. Bjarni Fritzson, höfundur bókanna um Orra óstöðvandi, ljóstraði þessu upp í Pallborðinu.

Bjarni og Ásgeir Örn Hallgrímsson voru gestir Stefáns Árna Pálssonar í Pallborðinu þar sem fjallað var um frammistöðu íslenska handboltalandsliðsins á HM og möguleikana í framhaldinu.

Talið barst meðal annars að Orra Frey sem hefur slegið í gegn á sínu fyrsta heimsmeistaramóti. Bjarni þekkir hornamanninn vel og fékk viðurnefni hans að láni fyrir sögupersónuna í barnabókunum vinsælu.

„Ég var að þjálfa hann í U-20 ára landsliðinu og ég þjálfaði fullt af þessum strákum þar. Þá var ég með þessa hugmynd að bókinni,“ sagði Bjarni í Pallborðinu.

„Þá sagði markmannsþjálfarinn minn mér að Orri væri kallaður Orri óstöðvandi þegar hann var lítill því hann var svo góður. Þannig að takk fyrir þetta Orri minn. Orri er Orri óstöðvandi. Við viljum að áhorfendur syngi Orra óstöðvandi lagið þegar hann skorar.“

Klippa: Pallborðið - Orri óstöðvandi

Orri Freyr er markahæstur í íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu með sextán mörk. Hann er með 89 prósent skotnýtingu.

Orri Freyr og félagar í íslenska landsliðinu mæta Egyptalandi í fyrsta leik sínum í milliriðli 4 í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi. Leikurinn verður síðan gerður ítarlega upp í máli og myndum á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×