Portúgal var 16-15 undir í hálfleik en náði að snúa stöðunni sér í vil í seinni hálfleiknum. Francisco Costa fór fyrir liðinu sem náði 6-0 kafla og hann endaði markahæstur með átta mörk.
Þetta er í fyrsta sinn sem að Portúgal vinnur Spán og jafnframt í fyrsta sinn sem Portúgalar komast í 8-liða úrslit HM. Áður höfðu Danmörk, Frakkland og Þýskaland tryggt sig áfram í 8-liða úrslitin.
Portúgal er með sjö stig á toppi milliriðils þrjú en Spánn aðeins með þrjú stig eftir fjóra leiki. Spánn er gott sem fallinn úr keppni en Svíþjóð og Brasilía, sem eru með fjögur stig hvort, mætast í dag.
Í milliriðli fjögur, sem Ísland spilar í, mættust tvö neðstu liðin og þar vann Argentína 30-26 sigur gegn Grænhöfðaeyjum. Hafsteinn Ramos Rocha var ekki á meðal markaskorara Grænhöfðaeyja sem núna eru eina stigalausa liðið í milliriðlinum.
Lærisveinar Arons Kristjánssonar í Barein urðu svo að sætta sig við 31-27 tap gegn Japan í Forsetabikarnum. Þeir mæta Bandaríkjunum á sunnudaginn í leik sem ræður því um hvaða sæti Barein spilar á mótinu og gætu enn unnið Forsetabikarinn með því að enda í 25. sæti.