„Það er rosalega margt sem fer í gegnum höfuðið á mér,“ sagði Logi í útsendingu Ríkissjónvarpsins í kvöld.
„Ég vil fyrst hrósa Degi fyrir að setja þennan leik vel upp,“ sagði Logi. Hann benti á það að Gunnar Magnússon og Dagur hafi fundið réttu leiðina til að trufla leik íslenska liðsins með þessari framliggjandi 5:1 vörn.
„Óli segir undanúrslit en núna er þetta farið úr okkar höndum en við vorum svona frá því að fara í átta liða úrslitin,“ sagði Logi.
„Núna þurfum við að bíða eftir leik. Við spilum leik á móti Argentínu og við þurfum að treysta á önnur úrslit núna,“ sagði Logi.
„Það er ótrúlegt að liðið sé komið í þessa stöðu. Þetta er ótrúlegt,“ sagði Logi.
Ólafur Stefánsson er mjög svartsýnn á það að úrslitin verði íslenska liðinu hagstæð í lokaumferðinni.
„Já það er mjög ólíklegt. Slóvenar munu ekki hafa að neinu að keppa og Króatar hafa að öllu að keppa. Ég held að það séu svona níutíu prósent líkur á því að þeir vinni þann leik,“ sagði Ólafur.
„Reynsla er eitthvað sem maður fær stuttu eftir að maður þarf á henni að halda. Við vorum að fá mikið þarna í reynslubankann. Auðvitað viljum við ekki sjá það,“ sagði Ólafur.
„Ég stend við það að við vorum betri en við höfum nokkurn tímann verið í mjög langan tíma í þessu móti. Við verðum bara að byggja á því áfram. Nota þá þetta sjokk og halda bara áfram,“ sagði Ólafur.
Logi var sérstaklega ósáttur með leikstjórn Snorra Steins í leiknum. Það að hann hafi aldrei sett Þorsteinn Leó Gunnarsson inn á völlinn og hversu lítið Haukur Þrastarson fékk að spila.
Sérfræðingarnir voru sammála um það að þessi varnarleikur Króata hentaði ekki þeim Janusi Daða Smárasyni og Gísla Þorgeiri Kristjánssyni.