Fótbolti

Rúnari Alex sagt að finna sér nýtt fé­lag

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson hefur aldrei fengið tækifæri til að sanna sig í liði FCK.
Rúnar Alex Rúnarsson hefur aldrei fengið tækifæri til að sanna sig í liði FCK. fck.dk

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í fótbolta, hefur fengið þau skilaboð frá vinnuveitendum sínum í FC Kaupmannahöfn að hann skuli finna sér nýtt félag.

Frá þessu greinir danski miðillinn Tipsbladet sem segir að tveir markverðir FCK, Rúnar Alex og Theo Sander, hafi fengið sömu skilaboð um að koma sér í burtu í félagaskiptaglugganum sem nú er opinn til 3. febrúar.

Þessar fréttir koma ekki á óvart því Rúnar Alex hefur sárafá tækifæri fengið hjá FCK og ekki einu sinni spilað í æfingaleikjunum nú á meðan að hlé er í dönsku úrvalsdeildinni. 

Frá því að Rúnar Alex kom til FCK frá Arsenal, fyrir ári síðan, hefur hann ekki fengið að spila einn einasta deildarleik og í síðustu þremur leikjunum fyrir jól var hann ekki einu sinni á varamannabekknum.

Samningur Rúnars Alex við FCK gildir hins vegar til sumarsins 2027.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×