Þetta hefur Vísir eftir öruggum heimildum en Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars staðfestir viðræður kappanna á milli í samtali við Vísi.
Kapparnir séu búnir að samþykkja að mætast í bardagabúrinu og er nú beðið eftir því að bæði Gunnar og Kevin Holland riti undir formlegan samning varðandi bardagann.
Um stóran bardaga verður að ræða fyrir Gunnar á leikvangi sem er farinn að teljast sem hans heimavöllur í UFC. Á O2 leikvanginum hefur hann oft barist, þar líður honum vel.
Kevin Holland er vel þekkt stærð í UFC bardagaheiminum og hefur barist mjög oft undanfarin ár, nú síðast þann 18.janúar síðastliðinn er hann laut í lægra haldi gegn Reinier de Ridder.
Holland hefur tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum en hann ber þó að varast. Þetta er bardagamaður sem hefur unnið 26 bardaga á sínum bardagaferli, fjórtán þeirra með rothöggi og átta með uppgjafartaki.
Bandaríkjamaðurinn Holland er afar litríkur karakter. Hann fagnaði með Donald Trump, Bandaríkjaforseta, eftir sigur á bardagakvöldi UFC í fyrra.
Þá sneri hann niður byssumann á veitingastað í Houston hér um árið.
Þegar kemur að bardaganum við Holland verða liðin tvö ár frá síðasta bardaga Gunnars, sem átti sér einmitt stað á O2 leikvanginum gegn Bandaríkjamanninum Bryan Barberena. Bardagi sem Gunnar kláraði í fyrstu lotu.
Gunnar er á tveggja bardaga sigurgöngu en langt hefur liðið á milli hans bardaga fyrir UFC sambandið upp á síðkastið. Alls státar Gunnar sig af afar myndarlegri tölfræði á atvinnumannaferlinu: 19 sigra og aðeins fimm töp