Áttatíu ár eru liðin frá frelsun fanga í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz í Póllandi. Alþjóðleg minningarathöfn var haldin þar á mánudag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, sakaði Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra, um að skrópa í vinnunni með því að mæta ekki á athöfnina og sem afleiðingu af því, á fund leiðtoga Norðurlanda um öryggismál sem boðað var til með skömmum fyrirvara.
„Fjarvera æðstu fulltrúa þjóðarinnar sýnir okkar nánustu bandamönnum og öðrum að Ísland forgangsraðar með allt öðrum og undarlegri hætti en löndin í kringum okkur,“ skrifaði Þórdís Kolbrún í samfélagsmiðlafærslu.
Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segir utanríkisráðuneytið að fram að þessu hafi Ísland ekki átt fulltrúa við minningarathöfn Auschwitz-Birkenau safnsins í Póllandi. Þorgerður Katrín hafi verið fyrsti fulltrúi íslenskra stjórnvalda til þess að sækja athöfnina þegar hún var viðstödd á mánudag.
Boð séu ekki send sérstaklega á þjóðarleiðtoga heldur sé þátttaka þeirra í athöfninni valfrjáls.