Innlent

Kennarar með við­bótar­kröfur og fundi frestað

Heimir Már Pétursson og Jón Ísak Ragnarsson skrifa
Kröfur Kennarasambands Íslands um breytingar á tillögu ríkissáttasemjara gætu leitt til þess að samningar sigli endanlega í strand.
Kröfur Kennarasambands Íslands um breytingar á tillögu ríkissáttasemjara gætu leitt til þess að samningar sigli endanlega í strand. Vísir/Vilhelm

Samningafundi samtaka kennara með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga lauk á áttunda tímanum í kvöld án þess að niðurstaða fengist í kjaradeilu þeirra. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við fréttastofu að hann hafi boðað deiluaðila til nýs fundar klukkan tíu í fyrramálið.

„Það lá fyrir þegar fundur hófst klukkan eitt í dag að samninganedir ríkisins og sveitarfélaganna höfðu samþykkt það sem ég lagði upp með í innanústillögu að kjarasamningi sem ég lagði fram á fimmtudag. Samþykki Kennarasambandsins lá hins vegar ekki fyrir þegar fundi lauk í kvöld og lagði sambandið fram ákveðnar kröfur á skilmálum þeirrar vegferðar sem ég lagði upp með,“ sagði Ástráður.

Ríkissáttasemjari vildi ekki leggja mat á hvort fundarhöld morgundagsins gætu dugað til að ná samkomulagi. Boðaðar verkfallsaðgerðir kennara í leik- og grunnskólum hefjast hins vegar á mánudagsmorgun.

Ríkissáttasemjari vildi heldur ekki leggja neitt mat á það hvort líkur væri á að verkfallsaðgerðum verði frestað dragist fundarhöld á langinn á morgun.

Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands sagði að loknum fundi að ríkissáttasemjari hefði mælst til þess að deiluaðilar ræddu ekki við fjölmiðla.


Tengdar fréttir

Viðræður á viðkvæmu stigi og fjölmiðlafólki hent út

Kjaraviðræður milli kennara og ríkis og sveitarfélaga eru á viðkvæmu stigi. Kennarar höfðu til klukkan 13 í dag til að taka afstöðu til innanhústillögu ríkissáttasemjara en sú afstaða liggur ekki enn fyrir. Fréttamönnum var vísað út úr Karphúsinu um tvöleytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×