Íslenski boltinn

Heiðdís aftur í Kópa­voginn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Knattspyrnukonan Heiðdís mætt aftur í grænt.
Knattspyrnukonan Heiðdís mætt aftur í grænt. Breiðablik

Heiðdís Lillýardóttir er gengin í raðir Íslandsmeistara Breiðabliks eftir að hafa spilað undanfarið erlendis í atvinnumennsku.

Heiðdís verður þrítug á næsta ári og þekkir vel til í Kópavoginum eftir að hafa spilað með Blikum frá 2017 til 2022. Á þeim tíma varð hún bæði Íslands- og bikarmeistari. Alls lék hún 155 leiki í grænu og skoraði í þeim sjö mörk.

Hún er alin upp á Egilsstöðum og hóf ferilinn með Hetti. Þaðan lá leiðin á Selfoss og svo í Kópavoginn. Hún samdi í kjölfarið við Benfica í Portúgal og síðar meir Basel í Sviss.

Það var hjá Basel þar sem hún varð ólétt og fæddi í kjölfarið sitt fyrsta barn á síðasta ári. Í viðtali við Fótbolti.net greindi Heiðdís frá því að Basel hafi ekki beint verið til í að hafa óléttan leikmann á sínum snærum.

„Ég var ekki beint velkomin á æfingasvæðið nema til að horfa á,“ sagði hún við Fótbolti.net áður en hún sagði að sjúkraþjálfurum liðsins hefði verið bannað að aðstoða hana við að gera æfingar heima þar sem hún væri ólétt.

Titilvörn Blika hefst á Kópavogsvelli þegar Stjarnan kemur í heimsókn í 1. umferð Bestu deildar kvenna þann 15. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×