„Kjörstjórn Kennarasambandsins kynnti niðurstöður í atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls í Tónlistarskólanum á Akureyri rétt í þessu,“ segir á vef Félags framhaldsskólakennara.
Félagsmenn í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum í Tónlistarskólanum á Akureyri greiddu atkvæði um boðun verkfalls dagana 3. til 5. febrúar.
Allir sem greiddu atkvæði samþykktu verkfallsaðgerðirnar.
„Verkfallsaðgerðir voru samþykktar með öllum greiddum atkvæðum og kjörsókn var góð, eða 87%. Verkfallið verður tímabundið og stendur frá 21. febrúar og til og með 4. apríl, hafi samningar ekki náðst.“
Verkföll í fimm framhaldsskólum
Fyrr í dag var greint frá því að verkföll myndu hefjast í Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Borgarholtsskóla, Verkmenntaskóla Austurlands og Fjölbrautaskóla Snæfellinga þennan sama dag, 21. febrúar, hafi samningar ekki náðst.