Það stefndi allt í framlengingu þegar Gonzalo García skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu í uppbótatíma.
Hinn tvítugi García hafði komið inn á sem varamaður fyrir Endrick á 82. mínútu.
Þetta leit allt mjög vel út hjá Real Madrid sem komst í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Luka Modric á 18. mínútu og Endrick á 25. mínútu.
Juan Cruz minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu á 39. mínútu og jafnaði svo metin á 59. mínútu. Þannig var staðan þangað til að komið var fram í uppbótatíma.
García skoraði markið mikilvæga með skalla eftir fyrirgjöf frá Brahim Diaz.
Atlético Madrid er líka komið í undanúrslitin eins og Real Madrid en á morgun fara fram tveir síðustu leikir átta liða úrslitanna.
Orri Steinn Óskarsson og félagar í Real Sociedad taka þá á móti Osasuna og Valencia fær Barcelona í heimsókn.