Fótbolti

Danska sam­bandið græddi meira en átta hundruð milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Groenbaek fagnar marki með danska landsliðinu en það var mjög vel mætt á leiki liðsins á síðasta ári.
Albert Groenbaek fagnar marki með danska landsliðinu en það var mjög vel mætt á leiki liðsins á síðasta ári. Getty/Ulrik Pedersen

Danska knattspyrnusambandið opinberaði ársreikning sinn í dag og það er óhætt að segja að rekstur sambandsins gangi vel þessi misserin.

Sambandið greindi frá því að það hafi grætt 41,7 milljón danskra króna á síðasta starfsári eða meira en 819 milljónir í íslenskum krónum.

Aðalástæðan er þátttaka karlalandsliðsins á Evrópumótinu síðasta sumar en einnig komu miklar tekjur inn af sölu miða á landsleikina.

Þessi góða niðurstaða er heldur í engu samræmi við fjárhagsáætlunina þar sem gert var ráð fyrir 21,5 milljóna tekjuhalla. Sambandið gerði reyndar ekki ráð fyrir tekjum af EM í þeim útreikningum þar sem landsliðið var ekki búið að tryggja sig inn á EM þegar fjárhagsáætlunin var sett saman.

Danska sambandið fékk 25 milljónir danskra króna eða 490 milljónir íslenskra króna í tekjur af EM.

Það er mikil áhugi á danska landsliðinu en sambandið seldi miða á leiki liðsins fyrir sautján milljónir danskra króna eða 334 milljónir íslenskra króna.

Hagstæðir styrktarsamningar við Salling Group og Carlsberg skiluðu líka tekjum í búið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×