Erlent

Til­finningarnar réðu för þegar fjöl­skyldur hittu gíslana

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Vinir og ættingjar Ohad Ben Ami og Eli Sharabi hafa beðið lengi eftir að sjá þá.
Vinir og ættingjar Ohad Ben Ami og Eli Sharabi hafa beðið lengi eftir að sjá þá. AP/Maya Alleruzzo

Þrír gíslar voru látnir lausir úr haldi Hamas samtakanna í dag í skiptum fyrir palestínska fanga sem voru frelsaðir. Tilfinningarnar réðu för þegar fjölskyldur hittu gíslana á ísraelskum spítala í morgun.

Tár féllu eðlilega þegar fjölskyldur hittu þá gísla sem hafa verið í haldi Hamas samtakanna frá 7. október 2023.

Gíslaskiptin eru hluti af yfirstandandi vopnahléi milli Ísraelsmanna og Hamas samtakanna sem tók gildi þann 19. janúar. Gíslarnir þrír sem hafa nú verið frelsaðir eru Eli Sharabi, Ohad ben Ami og Or Levy. Þeir voru allir fluttir með þyrlu til Ísrael í morgun og eru, eins og sést á þessum myndum horaðir og veiklulegir.

„Tilfinningin er eins og dásamlegur morgunn því Eli er að koma heim. Það er svo mikil gleði og léttir. Ég gat ekki sofið og taldi mínúturnar og sekúndurnar þangað til Eli kæmi heim. Svo sá ég hann í sjónvarpinu og varð áhyggjufull því það virtist ekki hafa verið hugsað mjög vel um hann,“ sagði Astrid Dafan, vinkona Eli Sharabi.

Yfirmaður á skrifstofu forsætisráðherra Ísrael segir að stjórnvöld muni bregðast við ítrekuðum brotum Hamas samtakanna á ísraelskum gíslum og vísar þar í heilsufarslegt ástand þeirra gísla sem sleppt var úr haldi í dag.

„Það eru 76 gíslar í viðbót, lifandi og dánir, í haldi Hamas. Við fylgjumst nákvæmlega með framkvæmd fyrsta hluta samkomulagsins og um leið undirbúum við framhaldið. Ríkisstjórn Ísraels er staðráðin í að þeim verði öllum skilað og vinnur sleitulaust með öllum öryggisstofnunum að heimkomu þeirra,“ sagði Gal Hirsch, yfirmaður á skrifstofu forsætisráðherra Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×