Handbolti

Ísak á leið í at­vinnu­mennsku

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Gústafsson sækir að marki Porto í Evrópudeildinni í vetur og Mosfellingurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson tekur á móti honum.
Ísak Gústafsson sækir að marki Porto í Evrópudeildinni í vetur og Mosfellingurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson tekur á móti honum. vísir/Anton

Selfyssingurinn Ísak Gústafsson hefur skrifað undir samning til tveggja ára við TMS Ringsted. Þessi 21 árs gamli handboltamaður fer til Danmerkur í sumar.

Ísak er uppalinn hjá Selfossi en hefur leikið með Val síðustu tvö tímabil. Hann er örvhent skytta og átti sinn þátt í því að Valsmenn skyldu verða Evrópubikarmeistarar á síðustu leiktíð, þar sem hann skoraði sjö mörk í úrslitaleiknum.

Í vetur hefur Ísak samtals skorað 29 mörk í Evrópudeildinni, gegn liðum eins og Porto, Vardar Skopje og Melsungen.

Ísak hefur einnig leikið með yngri landsliðum Íslands og átti þátt í bronsverðlaununum sem U21-landsliðið vann á HM sumarið 2023.

Eftir átján umferðir í dönsku úrvalsdeildinni er Ringsted í 11. sæti af 14 liðum en með sextán stig og heilum níu stigum fyrir ofan næsta lið. Ringsted er neðst í þéttum pakka og til að mynda aðeins fimm stigum frá 4. sæti deildarinnar.

Ísak hafði skorað 46 mörk í 11 leikjum í Olís-deildinni í vetur áður en hann reif liðþófa í hné en samkvæmt frétt handbolta.is gæti verið að hann snúi aftur til keppni fljótlega, jafnvel í kvöld.

Valsmenn eru í 4. sæti deildarinnar með 20 stig, aðeins þremur stigum frá toppliði FH og með leik til góða á Fram og Aftureldingu sem sitja í 2. og 3. sæti. Þeir mæta FH í sannkölluðum stórleik í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×