Atvinnulíf

Selfossvinir og afar sem velta milljörðum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Bestu vinirnir, vinnufélagarnir og afarnir Davíð Þór Kristjánsson og Guðbrandur Randver Sigurðsson eru búnir að koma sér vel fyrir með nýtt fyrirtæki, IDS Ísland, í gamla Landsbankahúsinu á Selfossi. Vitað er að félagið mun velta að minnsta kosti 1,5 milljarði króna á þessu ári en fyrir tíu árum síðan stofnuðu þeir líka fyrirtæki, Endor, sem á örskömmum tíma fór að velta milljörðum.
Bestu vinirnir, vinnufélagarnir og afarnir Davíð Þór Kristjánsson og Guðbrandur Randver Sigurðsson eru búnir að koma sér vel fyrir með nýtt fyrirtæki, IDS Ísland, í gamla Landsbankahúsinu á Selfossi. Vitað er að félagið mun velta að minnsta kosti 1,5 milljarði króna á þessu ári en fyrir tíu árum síðan stofnuðu þeir líka fyrirtæki, Endor, sem á örskömmum tíma fór að velta milljörðum. Vísir/Vilhelm

Það er ekkert smá gaman að spjalla við vinina Guðbrand Randver Sigurðsson og Davíð Þór Kristjánsson, sem nú fara fyrir fyrirtækinu IDS á Íslandi en stofnuðu Endor árið 2015; sem síðar var selt til Sýnar, en klauf sig þaðan út í fyrra og er nú hluti af alþjóðlegu keðjunni IDS.

Skemmtilegt spjall skýrist ekki bara af því hversu vel hefur gengið hjá félögunum; Sem ekki aðeins hafa velt milljörðum og munu gera enn á ný, heldur líka vegna þess hversu góðir vinir og félagar þeir eru.

„Eiginkonurnar þekkjast líka vel og eru góðar vinkonur,“ segja þeir íbyggir.

Alvarlegri undirtónn heyrist þó á stöku stað. Ekki síst þegar kemur að pólitíkinni.

„Ég þori að fullyrða að Ísland er nú þegar að tapa miklum fjárhæðum,“ segir Guðbrandur þegar félagarnir segja frá því hvernig Norðurlöndin og þá ekki síst Finnland, eru svo sannarlega að bæta vel í alla uppbyggingu á gagnaverum.

Til að mæta því sem koma skal því gervigreindin þarf víst svo mikla reiknigetu að sögn félaganna að annað eins hefur aldrei sést.

„Á Íslandi er staðan þannig að hér er skortur á rafmagni og hlutirnir gerast ekki nægilega hratt. Þú sérð nú bara stöðuna á Hvammsvirkjun; hvað er búið að rífast um þá virkjun í mörg ár?“ spyrja félagarnir og hrista höfuðið.

En við skulum byrja á byrjuninni.

Dabbi alltaf að „lenda“ í einhverju

Að vissu leyti má segja að viðtalið sé lífsreynslusaga Davíðs, alltaf kallaður Dabbi. Því hann virðist svo sannarlega alltaf vera að ,,lenda“ í einhverju.

„Ég er fæddur og uppalin á Selfossi og hef búið hér nánast alla mína hunds og kattartíð. Giftist þó konu frá Reykjavík og við fluttum þangað árið 2010 en aftur á Selfoss árið 2017,“ segir Guðbrandur, alltaf kallaður Guffi.

Guðbrandur er fæddur árið 1977 en Davíð árið 1973.

„Dabbi aftur á móti lenti bara í því að flytja á Selfoss,“ segir Guðbrandur og hlær.

Og hvernig ætli það hafi gerst? Jú, nákvæmlega þannig að Davíð kynntist konu frá Selfossi og eins og oft vill gerast í góðum hjónaböndum, taka hjón ákvörðun sem eiginkonan leiðir og eiginmaðurinn fattar nánast seinna að hafi „gerst.“

Eiginkona Davíðs heitir Þóra Valdís Hilmarsdóttir og eiginkona Guðbrands heitir Lucinda Árnadóttir. Davíð og Þóra eiga fjóra stráka og eitt barnabarn en börn Guðbrands og Lucindu eru þrjú talsins og barnabörnin telja tvö.

Davíð og Guðbrandur kynntust í gegnum karlaklúbbinn Roundtable á Selfossi. Báðir starfandi í tækniheiminum, fóru þeir að spjalla saman og smátt og smátt þróaðist með þeim vinskapur.

„Áður en ég vissi af var Guffi búinn að plata mig til að flytja mig frá Skýrr, sem nú heitir Advania. Þar hafði ég verið í ellefu ár og ákvað að slá til og stökkva á vagninn með Guffa, Gunna og fleirum í OK,“ segir Davíð og Guðbrandur bætir við:

„Það má segja að Dabbi hafi lent í OK svona svipað og hann lenti í að flytja á Selfoss!“

Þetta var árið 2011 þegar Guðbrandur var framkvæmdastjóri sölusviðs OK en í dag er verkaskiptingin þannig að Guðbrandur er framkvæmdastjóri IDS á Íslandi og Davíð er sölustjóri. Liðsmaðurinn Steindór Arnar Jónsson tæknistjóri starfar síðan frá Reykjavík, en Steindór er líka þekkt nafn í tæknigeiranum með tuttugu ára reynslu . Starfaði lengi hjá Advania þar sem hann og Davíð störfuðu saman á sínum tíma.

Síðan er það fjármálastjórinn Ágústa Þórhildur Sigurðardóttir, sem býr í Hveragerði og þekkir félagana vel því hún vann líka með þeim á upphafsárum Endor á sínum tíma.

„Hún stýrir okkur algjörlega eins og herforingi,“ segir Davíð grafalvarlegur og Guðbrandur tekur undir það.

Guðbrandur og Davíð kynntust í karlaklúbbnum Roundtable á Selfossi. Þeir urðu fljótt vinir og það sama má segja um eiginkonur þeirra og fjölskyldur: Sem hafa gert ótrúlega margt í gegnum tíðina. Guðbrandur og Davíð viðurkenna þó að oft sé erfitt að tala ekki um vinnuna þegar þeir eru í fríi.

Ekki alltaf auðvelt

En þótt flugið sé að taka hratt start hjá IDS á Íslandi, sem strax á fyrstu tíu til tólf vikunum velti 250 milljónum króna, þekkja félagarnir það líka að vera með rekstur nánast í járnum.

Þar sem ekki var alltaf hægt að greiða sér laun um hver mánaðarmót.

„Við vorum auðvitað ekki með neitt sjóðstreymi eða nokkra fjármögnun fyrir reksturinn,“ segir Guðbrandur þegar hann rifjar upp upphafsmánuði Endors árið 2015.

„Um tíma leituðum við að fjárfestum og ég get alveg sagt þér það að það að finna fjárfesta er miklu erfiðari þrautaganga en flestir gera sér grein fyrir.“

Félagarnir segja hugmyndina að Endor hafa komið til af ýmsu. Meðal annars vegna þess að gagnaversiðnaðurinn hafði verið að þróast nokkuð hratt á Íslandi, tímabilið 2010-2015 sérstaklega. Þau ár byggðust upp þrjú stór og alþjóðleg gagnaver í Reykjanesbæ: Borealis Data Center, Vernbe Global og gagnaver Advania sunnan Fitja.

Þá sáu félagarnir að nýir birgjar voru líka að koma inn á markaðinn sem þeim fannst spennandi. Því lengst af höfðu birgjarnir aðallega verið þeir sem stóru fyrirtækin eins og OK, Advania og Origo voru með umboð fyrir.

„En fyrsta árið var rosalega erfitt. Við vorum illa fjármagnaðir og má segja að þetta hafi bara verið þrautaganga til að lifa af mánuð fyrir mánuð í einu. Það tók tíma að byggja upp traust sem nýr aðili og byggja upp einhver viðskiptasambönd. Þannig að nei, það var svo aldeilis ekki þannig að maður væri endilega að fá útborgað,“ segir Davíð.

En þetta var mjög góður skóli. 

Því við höfðum báðir gegnt góðum störfum um langan tíma hjá stórum fyrirtækjum þar sem stöðugleikinn var þegar fyrir hendi. 

Þarna þurftum við hins vegar að læra hvernig það er að byggja upp fyrirtæki frá grunni og virkilega berjast fyrir því að koma því á lappirnar,“ 

segir Guðbrandur.

„En okkur fannst rosalega spennandi að fara að selja vörur og þjónustu sem ekki væri bundin ákveðnum vörumerkjum, heldur frekar því hverjar þarfir viðskiptavinarins væru. Frá fyrsta degi höfðum við tröllatrú á því að þetta myndi ganga, við þekktum markaðinn nokkuð vel og upplifðum þetta svolítið eins og Now or never stöðu…“ segir Davíð.

Davíð og Guðbrandur hafa stundað ýmsa útivist saman og eins og allir fjölskyldufeður eru hlutverkin mörg fyrir utan vinnuna. Að eltast við fótboltamótin, vera afi, hjólhýsast um land allt og fleira. Báðir eru ótrúlega ánægðir með að vera loks staðsettir í vinnu á Selfossi, þar sem fjölskyldurnar hafa búið um árabil.

BMW og fleiri risastórir

Það sem Endor gerði var að sérhæfa sig í heildarlausnum fyrir gagnaver og hýsingarþjónustu fyrirtækja.

Og þegar fyrirtækið tók loksins af stað í flugið, var flugið aldeilis nokkuð hátt.

Fyrsti risastóri samningurinn sem Endor gerði var við Atos og snérist um að setja upp og reka ofurtölvu umhverfi fyrir BMW árið 2016. Sá samningur var til fimm ára og innifól þá þegar nokkra milljarða.

„Við fórum meira að segja í viðtal til Heimis Karls í Bítinu út af þessu,“ segir Guðbrandur og brosir. Svona eins og það sé eitthvað krúttlegt við upprifjunina á fyrsta stóra samningnum.

Eftir þetta fóru hlutirnir að gerast hratt. Til dæmis bættist við hjá Endor að sjá um BMW í gagnaverum í Svíþjóð líka.

Innlendir aðilar ekkert síður en erlendir bættust í Endorhópinn; Fjármálafyrirtækin, Icelandair og Alvotech svo eitthvað sé nefnt.

Allt fyrirtæki sem nú þegar eru viðskiptavinir IDS á Íslandi.

Árið 2019 dró til tíðinda því þá seldu félagarnir Endor til Sýnar og árið 2020 var velta Endors 2,4 milljarðar króna; þá fimm ára.

Síðastliðið haust var síðan ákveðið að selja Endorhlutann út úr Sýn.

„Við erum enn í afar góðu samstarfi og samneyti við Sýn. En í byrjun árs 2024 vorum við farnir að átta okkur á því að kjarnastarfssemi Endors og Sýnar lægi ekki nógu vel saman til framtíðar. Við byrjuðum því á að þreifa fyrir okkur í samtölum við gamla tengiliði í gagnaversbransanum, sem leiddi okkur til samtals við Hexatronic,“ segir Guðbrandur.

Upplýsingatæknifyrirtækið Hexatronic er mikill risi á alþjóðavísu. Með um 100 milljarða króna í ársveltu og um tvö þúsund starfsmenn.

Starfssemi Hexatronic í Bretlandi er í gegnum dótturfyrirtækið þeirra IDS. Þaðan lá leiðin til Endor á Íslandi og þeirra ákvörðunar að Sýn seldi 2/3 hluta Endor hlutans til Hexatronic og IDS á Íslandi var stofnað 1.október 2024.

Kaupverð er ótilgreint en salan var einnig liður í því að einfalda rekstur Sýnar og aðlaga betur að sinni kjarnastarfsemi.

„Hugmyndin um að fara þessa leið fékk strax góðan hljómgrunn innan Sýnar. Sumarið fór svolítið i að vinna að samningum og þann 1.október var nýja félagið síðan stofnað formlega. Það sem gerir okkur að álitlegum valkosti fyrir IDS erlendis, eða Hexatronic, er að við höfum alltaf verið með aðeins öðruvísi nálgun á hlutina en þekkist víðast hvar erlendis,“ segir Guðbrandur og bætir við:

„Við eigum nú þegar dótturfélag í Svíþjóð og Þýskalandi þar sem við stefnum á að byggja upp sambærilega þjónustu og hér heima á Íslandi.“

Meðal stórra viðskiptavina Hexatronic/IDS erlendis eru risar eins og Google, Amazon og Microsoft.

Guðbrandur er fæddur og uppalinn á Selfossi og finnst hvergi jafn gott að búa. Fljótlega eftir að hann kynntist Davíð, sem þá starfaði hjá Advania, plataði hann Davíð til að færa sig um set til Opinna kerfa (OK) þar sem hann var framkvæmdastjóri sölusviðs. Síðan hafa félagarnir starfað saman alla daga.

Erfitt að tala ekki um vinnuna

Þegar viðtalið er tekið, sitja félagarnir í skrifstofuaðstöðunni sinni í sjarmerandi húsi á Selfossi, nánar tiltekið gamla Landsbankahúsinu.

„Það er búið að gera allt rosalega flott upp hérna,“ segja þeir og útlista að bankinn starfi enn á fyrstu hæðinni, önnur hæðin séu síðan skrifstofurými eins og þeir eru að nýta sér og á þriðju hæðinni sé flottur veislusalur.

Við settum það eiginlega sem skilyrði að höfuðstöðvar IDS á Íslandi yrðu á Selfossi,“ segja félagarnir og skýra það út hvernig draumurinn hafi verið að hætta að keyra á milli Selfoss og Reykjavíkur; vera frekar að vinna nær heimili og fjölskyldum.

En lífið er nú ekki bara vinna….

Og þó….

Því félagarnir viðurkenna að það reynist þeim oft afar erfitt að tala ekki um vinnuna.

Þótt mörg séu þau áhugamálin.

Því Guffi og Dabbi hjólhýsast öll sumur um land allt. Ferðast til útlanda, ganga á fjöll; hér heima og erlendis.

Eða matarboðin sem hjónin eða fjölskyldur njóta saman.

„Sko þetta er líka ekkert auðvelt því í svona rekstri stöndum við auðvitað alltaf vaktina þótt við séum í fríi…“ segja þeir til útskýringar.

Svona til að réttlæta fyrir sjálfum sér hversu mikinn part vinnan spilar í lífinu.

Enda svo sem ekki nema von. Því nú þegar hafa þessir tveir vinir frá Selfossi afrekað meira en margir sem fara í rekstur á Íslandi.

Byrjuðu þó með tvær hendur tómar.

Náðu upp í nokkurra milljarða króna veltu á örskömmum tíma.

Hafa selt sjálfan sig má segja ,,tvisvar.“

Og eru nú, tíu árum eftir stofnun Endors, á upphafsreit með nýtt og spennandi fyrirtæki sem þeir svo sannarlega eru hvergi bangnir með.

„Áætlunin gerir ráð fyrir 1,5 milljarða króna veltu á þessu ári,“ segir Guðbrandur.

„Ég myndi reyndar segja 1,5 milljarður plús,“ bætir þá Davíð við og Guðbrandur kinkar kolli.

Því já; strax í febrúar er útséð að áætlanir ársins munu standast og vel það.

Áætlun IDS Ísland gerir ráð fyrir 1,5 milljarða veltu á þessu ári og nú þegar er vitað að fyrirtækið mun standast það og meira til. Davíð og Guðbrandur þekkja það þó líka að vera með nýjan rekstur þar sem ekki var vitað hvort hægt væri að borga sér laun um mánaðarmótin. Tíu ár eru nú liðin frá því að Endorævintýrið hófst.

Fyrir okkur flest, er bissness eins og IDS svolítið óskiljanlegur. En til að setja það í samhengi hvers vegna ofurtölvur og gervigreindin mun þurfa svona mikið pláss og mikla þjónustu í framtíðinni, má taka sem dæmi gagnaversþjónustu fyrir aðila sem nota og þróa gervigreind.

Félagarnir lýsa þróuninni sem svo að gervigreindin (AI) þurfi mikið reikniafl vegna þess að hún vinnur með flókin gögn og reikninga til að greina, læra og taka ákvarðanir. 

Ofurtölvur eru svo notaðar í þróun og hermun í framleiðsluferli á til dæmis bílum, flugvélum, lyfjum, veður útreikningum og fleira. 

Til dæmis var ein öflugasta ofurtölva í heiminum lánuð til að flýta fyrir þróun og framleiðslu á Covid 19 mótefninu.

Að sögn félagnna eru einhver gagnaver á Norðurlöndunum uppseld til næstu tveggja þriggja ára.

Þess vegna eru löndin í kringum okkur að setja sig í svo miklar framtíðarstellingar.

„Nágrannalöndin okkar horfa á framtíðina sem stórt tækifæri og eru að leggja heilmikið í að byggja upp ný gagnaver. Sérílagi Finnarnir eins og við nefndum áðan. Ísland er hins vegar að dragast aftur úr að okkar mati,“ segja félagarnir.

Svo miklir vinir eru Davíð og Guðbrandur að þeir nánast vita alltaf hvað hinn er að hugsa. Í góðum ráðum segja þeir fólk verða að búast við því að þurfa að færa fórnir fyrst eftir að fólk stofnar sitt eigið fyrirtæki. Til viðbótar við það að hafa tröllatrú á sjálfum sér. Sem þeir félagar hafa alla tíð haft og það hefur hjálpað mikið.Vísir/Vilhelm

Um IDS á Íslandi segjast þeir í raun vera að mæta með nýjar bragðtegundir inn á markaðinn. Dag frá degi séu lítil afskipti frá erlendu eigendunum, en það sé frábærtað vera með risastóran bakhjarl frá byrjun reksturs.

Ólíkt því sem gilti um fyrstu mánuði Endors.

Sem er svo sem ágætt, því það eru svo sem mörg önnur verkefni að sinna líka: Davíð er til dæmis með gutta í fótbolta. Það þýðir hellings ferðalög til að elta boltann á sumrin.

Svo ekki sé talað um að elta sólina á hjólhýsunum.

Um afahlutverkin segja þeir:

„Það er auðvitað hellings vinna að sinna því líka.“

Golfið er þá óupptalið.

Og ýmiss önnur útivist.

„Við þurfum nú reyndar að fara að gefa aftur svolítið í göngurnar,“ segir annar þeirra og hinn kinkar kolli.

En hvaða góðu ráð viljið þið gefa öðrum, sem kannski eru með draum um að stofna nýtt fyrirtæki og velta fyrir sér hvað þarf fyrir velgegni eins og ykkar?

„Það skiptir miklu máli að hafa tröllatrú á því sem verið er að gera og vinna að. En fólk þarf líka að gera sér grein fyrir því að uppbygging á fyrirtæki þýðir að það þarf að færa hellings fórnir áður en hlutirnir fara síðan að skila sér,“ svara félagarnir nokkuð samtíga.

En hvað teljið þið hafa hjálpað mest við að vera svona góðir vinir en líka vinnufélagar?

„Við bara klikkuðum strax mjög vel saman,“ svara félagarnir og horfa á hvorn annan.

Og vitum oftast hvað hinn er að hugsa.“


Tengdar fréttir

Skemmtilegir úlpustrákar: Vinir sem urðu viðskipta-vinir

Það er gaman að taka spjallið við þá Sveinbjörn Traustason og Davíð Örn Ingimarsson, æskufélaga sem ákváðu að gerast frumkvöðlar og stofna fyrirtæki sem leigir útlendingum úlpur og annan útivistafatnað, gönguskó og útilegubúnað.

Coco Puffs þá pantað og staðgreitt mánuðum fyrirfram

„Þau sigldu um heimsins höf á norsku fraktskipi. Kynntust matarmörkuðum og ferskvörum á Ítalíu, í Afríku, Japan, Panama og fleiri stöðum í Ameríku og víðar. Ég held að áhrifin frá siglingunum hafi smitast inn í Melabúðina og þau eru hér enn hluti af sjarmanum,“ segir Snorri Guðmundsson. „Já, pabbi lagði mikla áherslu á úrval og gæði og lengi vel vissu Íslendingar oft ekki hvernig ferskvara átti að líta út,“ segir Pétur bróðir Snorra og bætir við: „Ég man til dæmis eftir manni sem vildi ekki hvítkálshausinn hjá pabba því hann var of hvítur. Hann bað því um þann brúna sem hann var vanur að fá, en auðvitað er hvítkál aldrei brúnt á lit nema það sé gamalt,“ segir Pétur og hlær.

Slógu til árið 2010 og velta nú á annan milljarð

Bjarki Viðar Garðarsson og Pétur Hannes Ólafsson kynntust þegar þeir störfuðu báðir að uppbyggingu íslenskra fyrirtækja í Hong Kong. Með þeim tókst strax góður vinskapur og yfir kaffibolla á Starbucks ákváðu þeir að stofna sitt eigið fyrirtæki. Onanoff veltir nú um 1,3 milljarði og stefnir veltan í tvo milljarða á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×