Tennisþjálfarinn Stefano Vukov hefur verið settur í bann hjá WTA fyrir brot á agareglum. Hann fer í bannið fyrir illa meðferð á tenniskonunni Elenu Rybakina. Hún er sjöunda besta tenniskona heims.
Það sérstaka við þetta mál er að hún sjálf vildi ekki að hann yrði dæmdur í bann. Þess í stað vildi hún fá hann aftur inn í þjálfarateymi sitt en með þessum dómi er það úr sögunni. Hann má ekki koma nálægt tennisíþróttinni á næstunni.
„Ég er vonsvikin með stöðu mála og hvernig þetta gekk fyrir sig. Ég ætla samt ekki að segja meira um þetta,“ sagði Elena Rybakina eftir leik á Opna katarska mótinu.
Rannsakendur á vegum WTA komust að því að Vukov smánaði hana og fór mjög illa með hana þegar hann var þjálfari hennar. Vukov var áður dæmdur í bann og nú hefur áfrýjun hans verið tekin fyrir með sömu niðurstöðu. Það kemur þó ekki fram hversu langt bannið er.
Vukov kallaði Rybakinu meðal annars heimska og sagði að hún hefði verið enn í Rússlandi að taka upp kartöflur ef að það væri ekki fyrir hann.
Samkvæmt rannsókninni þá grét hún undan honum, hann ýtti henni yfir öll líkamleg mörk sín og hann sá til þess að hún veiktist eftir mikið andlegt og líkamlegt álag.
Eftir að hún lét hann fara sem þjálfara sinn þá hélt hann áfram að reyna að áreita hana þótt að hún hafi lokað á samskipti þeirra.
Þrátt fyrir þetta vill hún nú að hann þjálfi hana á ný.
Elena Rybakina er 25 ára gömul og fædd í Rússlandi. Hún hefur keppt fyrir Kasakstan frá árinu 2018.
Rybakina er sjöunda besta tenniskona heims í dag samkvæmt heimslistanum en fór hæst upp í þriðja sæti listans í júní 2023. Hún hefur unnið eitt risamót en það gerði hún á Wimbledon mótinu árið 2022. Hún tapaði úrslitaleik á Opna ástralska mótinu árið 2023. Vukov þjálfaði hana þegar hún vann Wimbledon.