Everton sótti Crystal Palace heim í síðasta leik dagsins og vann góðan 2-1 útisigur þökk sé sigurmarki Carlos Alcaraz þegar tíu mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Markið kom eftir að Ashley Young átti fyrirgjöf, eða skot, fyrir markið sem fór af varnarmanni og féll fyrir fætur Alcaraz.
Us at FT: pic.twitter.com/SlrrmGhWbl
— Everton (@Everton) February 15, 2025
Hinn síungi Young hafði aðeins verið inn á vellinum í nokkrar sekúndur þegar hann kom að því sem reyndist sigurmarið. Heillaskipting hjá Moyes sem virðist ekki geta gert neitt rangt í Bítlaborginni.
Beto hafði komið Everton yfir í fyrri hálfleik, eftir undirbúning Alcaraz, en Jean-Philippe Mateta jafnaði metin snemma í síðari hálfleik.
Þökk sé sigurmarki Alcaraz hefur Everton nú unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni. Eini leikurinn sem vannst ekki var 2-2 jafntefli gegn Liverpool, stig sem Moyes hefði tekið fegins hendi fyrir leik.
Í millitíðinni datt Everton út úr ensku bikarkeppninni eftir 2-0 tap gegn Bournemouth en miðað við stöðuna á liðinu þegar Moyes tók við þá snerist allt um að halda Everton í deild þeirra bestu.
Það virðist ætla að ganga upp og gott betur en það. Eftir sigur dagsins er Everton komið upp í 13. sæti – upp fyrir bæði Manchester United og Tottenham Hotspur – með 30 stig eða 13 stigum frá fallsæti.