Enski boltinn

Pep varð fyrst hræddur um Haaland en er nú von­góður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland liggur hér þjáður í grasinu eftir að hafa snúið eitthvað upp á hægra hnéð. Það er ekki vitað hversu alvarleg meiðslin eru.
Erling Haaland liggur hér þjáður í grasinu eftir að hafa snúið eitthvað upp á hægra hnéð. Það er ekki vitað hversu alvarleg meiðslin eru. Getty/Robbie Jay Barratt

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er vongóður um að Erling Haaland geti spilað seinni leikinn á móti Real Madrid í umspili um laust sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Guardiola viðurkennir þó að hann hafi verið hræddur um Haaland þegar hann sá þann norska meiðast í seinni hálfleiknum á móti Newcastle um helgina.

Haaland greip þá um hnéð eftir atvik þar sem enginn kom við hann. Það leit út fyrir að sá norsku hafi fundið eitthvað mikið til í hægri hnénu.

Haaland fékk meðhöndlun og gekk svo á varamannabekkinn þar sem hann fylgdist með restinni af leiknum.

„Þegar hann fór niður þá voru allir hræddir um hann. Hann gekk hins vegar brosandi af velli og læknirinn sagði mér engar slæmar fréttir. Vonandi er í lagi með hann,“ sagði Pep Guardiola. ESPN segir frá.

City er þegar búið að missa Rodri í krossbandsslit fyrr í vetur og það yrði auðvitað mikið áfall að missa Haaland á þessum tímapunkti.

„Ég hef ekki talað við læknirinn. Kannski er þetta ekki eins slæmt og það gat orðið,“ sagði Guardiola.

City tapaði fyrri leiknum á móti Real Madrid og seinni leikurinn fer fram í Madrid á miðvikudagskvöldið.

Haaland skoraði bæði mörkin í fyrri leiknum og hefur alls skorað átta mörk í níu leikjum í Meistaradeildinni á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×