Segja má að eitthvað mjög svipað hafi verið uppi á teningnum hjá Andra og Guðmundi í kvöld því báðir skoruðu sjö mörk í jafnteflisleikjum.
Andri var næstmarkahæstur hjá Leipzig, sem pabbi hans Rúnar Sigtryggsson stýrir, í 34-34 jafntefli við Eisenach á útivelli. Andri átti lokatilraun leiksins, eftir að Eisenach missti boltann 14 sekúndum fyrir leikslok, en skot hans fór í varnarmann.
Leipzig er nú með 15 stig í 13. sæti af 18 liðum þýsku 1. deildarinnar en Eisenach er í 9. sætinu.
Mörkin sjö hjá Guðmundi Braga gerðu hann markahæstan hjá Bjerringbro-Silkeborg í 30-30 jafntefli við KIF Kolding á útivelli, í efstu deild Danmerkur.
Hann átti einnig þrjár stoðsendingar og þar á meðal sendinguna í jöfnunarmarki gestanna á síðustu sekúndu, sem Alexander Lynggaard skoraði af línunni.
Dagur vann Grétar í Frakklandi
Fyrr í kvöld skoraði Arnar Birkir Hálfdánsson fimm mörk fyrir Amo sem varð að sætta sig við 38-34 tap gegn Helsingborg í efstu deild Svíþjóðar.
Í Frakklandi vann Montpellier 33-26 útisigur gegn Ivry í Íslendingaslag. Dagur Gautason skoraði tvö marka Montpellier en Grétar Ari Guðjónsson stóð í marki Ivry hálfan leikinn og varði fjögur skot af nítján.