Íslenski boltinn

Magnús Orri tekur við formannsstólnum af Páli

Valur Páll Eiríksson skrifar
Magnús Orri Schram er nýr formaður knattspyrnudeildar KR.
Magnús Orri Schram er nýr formaður knattspyrnudeildar KR. Aðsend

Magnús Orri Schram er nýr formaður knattspyrnudeildar KR. Hann hlaut kjör á aðalfundi deildarinnar í gær og tekur við Páli Kristjánssyni.

Líkt og greint var frá á Vísi í vetur hugðist Páll stíga til hliðar. Vísir greindi frá því þá að Magnús Orri væri líklegur til að taka við.

Magnús Orri, sem sat meðal annars á þingi fyrir Samfylkinguna 2009 til 2013, hefur nú formlega tekið við af Páli. Hann snýr aftur í KR eftir að hafa verið framkvæmdastjóri félagsins frá 1999 til 2000.

Einhverjar breytingar verða á stjórninni. Athafnamaðurinn Sindri Snær Jensson er ekki í nýrri stjórn og þau Jóhann G. Jóhannsson, Kristján Schram, Valdís Arnórsdóttir og Valgerður Erlingsdóttir stíga einnig til hliðar.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri flugfélagsins Play, er áfram í stjórninni og fyrrum landsliðsmaðurinn Indriði Sigurðsson kemur inn eftir að hafa verið varamaður í síðustu stjórn.

Baldur Stefánsson, Bjarki Pjetursson, Guðlaug Jónsdóttir, Guðrún Ása Björnsdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Haukur Ingi Guðnason og Hildur Margrét Nielsen manna þá einnig stjórn deildarinnar.

Guðlaug og Guðrún Sóley léku báðar um árabil með kvennaliði félagsins og eiga fjölda landsleikja að baki fyrir Íslands hönd.

Haukur Ingi lék þá um skamma hríð með KR en var einnig leikmaður Liverpool um tíma. Hann spilaði lengst af með Keflavík og Fylki hér á landi.

Ný stjórn knattspyrnudeildar KR:

  • Magnús Orri Marínarson Schram (formaður)
  • Baldur Stefánsson
  • Bjarki Pjetursson
  • Einar Örn Ólafsson
  • Guðlaug Jónsdóttir
  • Guðrún Ása Björnsdóttir
  • Guðrún Sóley Gunnarsdóttir
  • Haukur Ingi Guðnason
  • Hildur Margrét Nielsen
  • Indriði Sigurðsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×