Enski boltinn

Hamrarnir hentu frá sér tveggja marka for­ystu gegn Arsenal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný í leik dagsins.
Dagný í leik dagsins. Alex Burstow/Getty Images

West Ham United komst 3-1 yfir gegn Arsenal í efstu deild kvenna í knattspyrnu á Englandi. Skytturnar komu hins vegar til baka og unnu frábæran 4-3 endurkomusigur. Dagný Brynjarsdóttir kom ekki inn af bekknum fyrr en Skytturnar voru komnar yfir.

Landsliðskonan Dagný hefur ekki verið í náðinni hjá þjálfara West Ham undanfarið og hóf leik dagsins enn á ný á varamannabekknum. Það virtist ekki koma að sök þar sem Amber Tysiak skoraði tvö mörk með fimm mínútna millibili og gestirnir óvænt 2-0 yfir eftir aðeins 12 mínútna leik.

Chloe Kelly gaf Skyttunum von með marki rétt fyrir hálfleik, staðan 1-2 í hléinu. Shekiera Martinez kom West Ham hins vegar 3-1 yfir í upphafi síðari hálfleiks en eftir það tók Arsenal öll völd á vellinum.

Katie McCabe minnkaði muninn á 56. mínútu. Leah Williamsson jafnaði metin aðeins tveimur mínútum síðar og þegar rétt rúm klukkustund var liðin fengu Skytturnar vítaspyrnu.

Mariona Caldentey fór á punktinn og kom heimaliðinu yfir, staðan orðin 4-3. Það var þá loks sem Dagný var send inn af bekknum hjá gestunum en það var of lítið of seint. Leiknum lauk með 4-3 sigri Arsenal.

Arsenal er nú í 3. sæti með 33 stig, sjö stigum minna en topplið Chelsea eftir 15 umferðir. West Ham er í 9. sæti með 14 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×