Skoðun

Bóka­safnið: hjartað í hverjum skóla

Stefán Pálsson skrifar

Metnaðarfullur sáttmáli nýrra samstarfsflokka í borgarstjórn Reykjavíkur hefur verið kynntur. Þótt skammt sé eftir af kjörtímabilinu má búast við að áhrifa hins nýja samstarfs muni gæta á mörgum sviðum. Sérstök áhersla verður lögð á skólamál og málefni barna.

Það er mikið gleðiefni að á verkefnalistanum sé sérstaklega hugað að eflingu skólabókasafna. Það voru mörgum sár vonbrigði þegar fyrri meirihluti kaus að skera niður framlag til þessa mikilvæga málaflokks. Fagfólk varaði við ákvörðuninni enda kom fljótlega í ljós að hún var misráðin. Reykjavík hefur lengi lagt áherslu á þá sterku stöðu sem bókmenntir hafa í borginni og hvað bækur skipta miklu máli fyrir sjálfsmynd borgarbúa. Reykjavík er bókmenntaborg UNESCO og hefur sem slík staðið að fjölda verkefna til að lyfta lestri og lestrarmenningu.

Í ljósi þessarar arfleifðar hafa vísbendingar um síminnkandi lestur íslenskra ungmenna vakið áhyggjur. Ljóst er að góð lestrarhæfni er forsenda náms á flestum sviðum sem og lýðræðislegrar þátttöku í samfélaginu. Öflug skólabókasöfn eru eitthvert besta tækið sem við höfum yfir að búa til að lyfta undir lestur ungmenna og ást þeirra á bókum. Skólabókasöfnin eru svo sannarlega hjartað í hverjum skóla.

Tíu milljóna áætlað viðbótarframlag á ári mun reynast skólabókasöfnum borgarinnar mikilvæg innspýting og ætla má að hún gæti nýst ennþá betur með samningum og samstarfi við Félag bókaútgefenda og aðra hagaðila. Vinir bókarinnar hljóta að fagna þessu framtaki.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna & fulltrúi í Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Jón Gnarr skrifar

Sjá meira


×