Handbolti

Botnliðin unnu bæði og eygja nú meiri von um að bjarga sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjölnismenn lifa enn í voninni um að ná að halda sér í deildinni.
Fjölnismenn lifa enn í voninni um að ná að halda sér í deildinni. Vísir/Diego

Fjölnir og ÍR, tvö neðstu lið Olís deildar karla í handbolta, eru ekki búin að syngja sitt síðasta í fallbaráttunni.

Bæði botnliðin fögnuðu nefnilega langþráðum sigrum í kvöld. Fjölnir vann Gróttu á útivelli en ÍR-ingar fögnuðu sigri á móti HK.

Fjölnir vann fjögurra marka sigur á Gróttu á Seltjarnarnesi, 35-31, eftir að hafa verið 17-13 yfir í hálfleik.

Þetta var fyrsti sigur Fjölnismanna síðan 25. október en þeir voru búnir að tapa tíu deildarleikjum í röð.

Björgvin Páll Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir Fjölni og þeir Elvar Þór Ólafsson og Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson voru báðir með sjö mörk. Jón Ómar Gíslason skoraði sjö mörk fyrir Gróttu.

ÍR-ingar unnu þriggja marka sigur á HK, 32-29, á heimavelli sínum en ÍR var 14-11 yfir í hálfleik.

ÍR var búið að tapa fimm deildarleikjum í röð og hafði ekki fagnað sigri í deildinni síðan 28. nóvember.

Baldur Fritz Bjarnason var með 12 mörk og sex stoðsendingar fyrir ÍR í kvöld og Bernard Kristján Darkoh skoraði níu mörk. Hjörtur Ingi Halldórsson var markahæstur hjá HK með sex mörk.

ÍR er nú með jafnmörg stig og Grótta en Fjölnir er síðan tveimur stigum á eftir í neðsta sæti deildarinnar.

KA og ÍBV gerðu 31-31 jafntefli á Akureyri en KA-menn voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 19-17.

KA náði að enda tveggja leikja taphrinu en tókst ekki að vinna sinn fyrsta sigur síðan 9. febrúar. Ott Varik skoraði jöfnunarmarkið og Bruno Bernat varði svo lokaskot Eyjamanna.

Dagur Árni Heimisson skoraði tíu mörk fyrir KA í kvöld og Patrekur Stefánsson var með átta mörk. Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir ÍBV og Sveinn Jose Rivera var með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×