Innlent

Tvær þyrlur kallaðar út vegna al­var­legs umferðarslyss í Berufirði

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru á leið til Berufjarðar vegna alvarlegs umferðarslyss.
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru á leið til Berufjarðar vegna alvarlegs umferðarslyss. Vísir/Vilhelm

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar til Berufjarðar upp úr hádegi vegna alvarlegs tveggja bíla umferðarslyss í norðanverðum firðinum.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, greindi frá þessu í samtali við fréttastofu. Landhelgisgæslunni hafi borist tilkynning um slysið á slaginu tólf.

Hvorki lögreglan á Austurlandi né slökkvilið gátu tjáð sig við fréttastofu um slysið nema til að greina frá því að um tveggja bíla árekstur var um að ræða.

Tvær þyrlur boðaðar út

„Það var óskað eftir aðkomu þyrlusveitar gæslunnar vegna umferðaslyss í norðanverðum Berufirði fyrir austan. Við boðuðum út tvær þyrlur vegna slyssins,“ sagði Ásgeir.

Hann gat ekki gefið frekari upplýsingar um slysið nema að það væri alvarlegt. Vegna þess að slysið hefði átt sér stað fyrir austan ættu þyrlurnar fyrir höndum langt flug.

„Önnur þyrlan er farin af stað og hin er að undirbúa það að leggja af stað á vettvang,“ sagði Ásgeir við fréttastofu um hálf eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×