Fótbolti

Ter Stegen nafn­greinir blaða­menn og segir þá lygara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marc-André ter Stegen er langt frá því að vera sáttur með fréttaflutning Catalunya Radio.
Marc-André ter Stegen er langt frá því að vera sáttur með fréttaflutning Catalunya Radio. ap/Manu Fernandez

Marc-André ter Stegen, markvörður Barcelona, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttaflutnings af skilnaði hans og eiginkonu hans. Hann kallar þrjá blaðamenn lygara.

Catalunya Radio sagði frá því að Ter Stegen hefði ákveðið að skilja við eiginkonu sína, Dani, vegna framhjáhalds hennar.

Ter Stegen segir ekkert til í þessum fréttum í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag. Þar kallar hann blaðamennina Juliönu Canet, Roger Carandell og Mörtu Montaner lygara og segir þá hafa móðgað Dani og svert mannorð hennar.

Ter Stegen segir af og frá að framhjáhald sé ástæða skilnaðarins. Þau Dani hafi ákveðið að fara í sitt hvora áttina og það í góðu. Þýski markvörðurinn segir ótækt að fjölmiðill í ríkiseigu hagi sér með þessum hætti og skaðinn sem hann hafi valdið sé óbætanlegur.

Ter Stegen og Dani hafa verið gift í átta ár og eiga tvö börn saman. Ter Stegen hefur leikið með Barcelona síðan 2014.

Þjóðverjinn hefur ekkert leikið með Barcelona síðan í september vegna meiðsla í hné.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×