Groningen vann þá 1-0 heimasigur á Fortuna Sittard. Brynjólfur skoraði eina mark leiksins þremur mínútum fyrir leikslok.
Brynjólfur kom inn á sem varamaður á 64. mínútu og sú skipting skipti sköpum fyrir Groningen.
Brynjólfur fékk boltann í teignum og skoraði með hægri fótar skoti fyrir utan markteiginn.
Markið skilaði Groningen upp í níunda sæti deildarinnar. Liðið hefur unnið þrjá sigra og tekið tíu stig af tólf mögulegum í síðustu fjórum leikjum sínum
Þetta var fjórða deildarmark Brynjólfs á leiktíðinni en það fyrsta síðan 18. janúar.
Hann skoraði tvívegis í 2-2 jafntefli við Feyenoord í september en hafði síðan skorað aðeins eitt mark í fimmtán deildarleikjum.