Fótbolti

Stefán Teit dreymir um bikarævintýri og Wembl­ey

Aron Guðmundsson skrifar
Stefán Teitur Þórðarson fagnar sigurmarki sínu gegn Portsmouth um helgina en það kom á ögurstundu.
Stefán Teitur Þórðarson fagnar sigurmarki sínu gegn Portsmouth um helgina en það kom á ögurstundu. PNEFC/Ian Robinson

Í enska bikarnum eigum við Ís­lendingar okkar full­trúa í átta liða úr­slitunum, Skaga­manninn Stefán Teit Þórðar­son, leik­mann Preston North End, sem verður í eld­línunni þegar að enska úr­vals­deildar­félagið Aston Villa mætir í heimsókn í dag.

Stefán er á sínu fyrsta tíma­bili á Eng­landi eftir að hafa gengið til liðs við Preston frá danska úr­vals­deildar­félaginu Sil­ke­borg.

Nú þegar er Stefán Teitur orðinn mikilvægur hlekkur í liði Preston, Skagamaðurinn hefur komið við sögu í 38 leikjum á yfir­standandi tíma­bili og í þokka­bót komið að nokkrum mörkum. Hann skoraði meðal annars dramatískt sigur­mark í síðustu um­ferð í ensku B-deildinni gegn Portsmouth.

„Það tók kannski smá tíma að venjast öllu á Eng­landi en ég hef verið að spila rosa­lega mikið og vel núna undan­farna fjóra til fimm mánuði. Ég fékk nýja stöðu eftir að ég kom þarna inn, er orðinn eina sex­an í liðinu núna, öðru­vísi staða en ég er vanur frá tíð minni í Dan­mörku en líður frábær­lega innan sem utan vallar á Eng­landi. Það hefur sýnt sig í frammistöðu minni með Preston.“

Preston er um miðja deild í ensku B-deildinni og mögu­leikarnir á að komast upp í ensku úr­vals­deildina litlir. En í enska bikarnum er liðið komið alla leið í átta liða úr­slit, er eina liðið úr neðri deildum Eng­lands sem er eftir í þeirri keppni og á í dag leik þar gegn enska úr­vals­deildar­félaginu Aston Villa á heima­velli.

Aston Villa hefur verið með betri liðum Eng­lands undan­farið ár eða svo og er komið alla leið í átta liða úr­slit Meistara­deildar Evrópu. Verðugt verk­efni fyrir Stefán Teit og liðs­félaga hans í Preston en Skagamaðurinn hefur trú.

Er maður að leyfa sér að dreyma um eitt­hvað bikarævintýri?

„Já hundrað pró­sent. Þetta er í fyrsta skipti í ein­hver sex­tíu ár sem Preston North End kemst alla leið í átta liða úr­slit enska bikarsins. Maður finnur að það er mikil stemning og spenna fyrir þessu í öllum hópnum. Við erum nú þegar búnir að slá út úr­vals­deildar­lið á tíma­bilinu í enska deildar­bikarnum þar sem að við höfðum betur gegn Ful­ham. Það verður vonandi bara sama uppi á teningnum í bikarnum og við náum að slá út Aston Villa og koma okkur á Wembl­ey.“

Leikur Preston Norh End og Aston Villa í átta liða úr­slitum enska bikarsins í fót­bolta verður sýndur í beinni út­sendingu á Voda­fone sport klukkan hálf eitt í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×