Innlent

Orkuveitan vill reisa fimm­tán vind­myllur

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Orkuveitan vill reisa allt að fimmtán vindmyllur.
Orkuveitan vill reisa allt að fimmtán vindmyllur. Getty

Orkuveitan hyggst byggja vindorkugarð við Dyraveg á Mosfellsheiði. Gert er ráð fyrir fimmtán vindmyllum í vindorkugarðinum en þarf samt sem áður fyrst ýmis leyfi og ljúka þarf lögbundnu ferli.

Þrjú svæði í nágrenni Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjunar hafi komið til greina og leiddi greining í ljós að Dyravegur henti vel. Staðsetningin sé nálægt dreifikerfi og starfssvæði Orkuveitunnar og nálægt röskuðu svæði. Þá þarf að lágmarka áhrif á umhverfi, náttúru og dýralíf en einnig sjónræn áhrif við mikilvæg náttúru-, ferðamanna- og útivistarsvæði. Dyravegurinn uppfylli öll þessi skilyrði. Enn er verið að skoða hin tvö svæðin en er greining svæðanna skemur á veg komin.

Gert er ráð fyrir að fjöldi vindmyllanna verði allt að fimmtán og þær verði á milli 160 og 210 metrar á hæð.

Hér má sjá hvar Orkuveitan hyggst reisa vindmyllurnar.Skjáskot/Skipulagsgátt

Ákvörðunin hefur ekki verið tekin heldur þarf fyrst að klára lögbundið ferli í samræmi við lög um rammaáætlun og fá samþykkta þingaályktunartillögu um rammaáætlun frá Alþingi. Framkvæmdin er þá háð mörgum leyfum, svo sem virkjunarleyfi, framkvæmdaleyfi frá Sveitarfélaginu Ölfusi, starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti og Heilbrigðisnefnd Suðurlands, leyfi Minjastofnunar Íslands og Samgöngustofu.

Hér má sjá matsáætlun Orkuveitunnar í heild sinni. Almenningur getur sent inn athugasemdir í gegnum skipulagsgátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×