Enski boltinn

Bruno bestur í mars

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bruno Fernandes hefur komið með beinum hætti að sautján af 37 mörkum Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í vetur.
Bruno Fernandes hefur komið með beinum hætti að sautján af 37 mörkum Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í vetur. getty/Alex Livesey

Fyrirliði Manchester United, Bruno Fernandes, var valinn leikmaður mars-mánaðar í ensku úrvalsdeildinni. Þetta er í fimmta sinn sem hann fær þessi verðlaun og í fyrsta skipti síðan 2020.

Fernandes átti þátt í öllum fjórum mörkunum sem United skoraði í mars. Hann skoraði beint úr aukaspyrnu í 1-1 jafntefli við Arsenal og skoraði svo eitt mark og lagði upp tvö í 0-3 sigri á Leicester City.

Fernandes gekk í raðir United frá Sporting í janúar 2020 og var fjórum sinnum valinn leikmaður mánaðarins á fyrsta árinu sínu með Rauðu djöflunum. Fimmta viðurkenningin bættist svo við í dag.

Aðeins fimm leikmenn hafa oftar verið valdir leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni en Fernandes. Harry Kane, Sergio Agüero og Mohamed Salah hafa fengið þessa viðurkenningu sjö sinnum hver og Steven Gerrard og Cristiano Ronaldo sex sinnum hvor.

Þrátt fyrir að illa hafi gengið hjá United á tímabilinu hefur Fernandes staðið fyrir sínu. Hann hefur skorað átta mörk og gefið níu stoðsendingar í 29 deildarleikjum.

United, sem er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar fær Manchester City í heimsókn á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×