Arsenal mistókst að minnka forskot Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í níu stig þegar félagið heimsótti Bítlaborgina í dag. Everton og Arsenal gerðu þá 1-1 jafntefli í síðasta leik félaganna á Goodison Park.
Eftir þessi tvö töpuðu stig Arsenal manna þá munar ellefu stigum á Liverpool og Arsenal. Liverpool liðið getur nú náð fjórtán stiga forskoti vinni þeir leik sinn á morgun.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hvíldi lykilmenn fyrir Meistaradeildarleik á móti Real Madrid á þriðjudaginn. Martin Ödegaard, Bukayo Saka, Thomas Partey, Gabriel Martinelli og Jurrien Timber byrjuðu allir á bekknum en komu inn á sem varamenn í seinni hálfleiknum.
Það var þó umdeildur dómur sem færði Everton jöfnunarmarkið. Hini ungi Myles Lewis-Skelly var talinn hafa brotið á Jack Harrison en Arsenal menn voru mjög ósáttir með dóminn.
Iliman Ndiaye, sem kom aftur inn í lið Everton eftir meiðsli, skoraði af öryggi úr vítinu og tryggði Everton jafntefli.
Belginn Leandro Trossard, sem spilaði sem fremsti maður í dag, hafði komið Arsenal yfir á 34. mínútu.
Trossard fékk þá boltann frá Raheem Sterling eftir hraða sókn og skoraði með hnitmiðaðri og laglegri afgreiðslu í fjærhornið.
Trossard fékk annað tækifæri fyrir hálfleik en Jordan Pickford varði vel frá honum.
Bukayo Saka og Gabriel Martinelli komu inn á völlinn í hálfleik en Arsenal byrjaði seinni hálfleikinn illa.
Everton var í tvígang við það að sleppa í gegn og svo missti Lewis-Skelly mann inn fyrir sig sem endaði með vítaspyrnudómi.
Arsenal svaraði þessu jöfnunarmarki með betri leik en þeim tókst ekki að koma boltanum framhjá Pickford, sem átti góðan leik í marki Everton í dag.
Arsenal hefur gengið illa að skora á þessu tímabili og þeir fengu vissulega tækifæri í seinni hálfleiknum til að tryggja sér sigur og setja smá pressu á Liverpool.