Fótbolti

Bar­ca mis­tókst að ná sex stiga for­skoti

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn Real Betis reyndu ýmislegt til að reyna að stöðva Fermin Lopez í leiknum í kvöld.
Leikmenn Real Betis reyndu ýmislegt til að reyna að stöðva Fermin Lopez í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Barcelona mistókst að koma sér í sex stig forystu í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar liðið náði aðeins jafntefli gegn Real Betis á heimavelli.

Eftir að Real Madrid tapaði fyrr í dag fyrir Valencia var ljóst að Barcelona myndi ná sex stiga forskoti á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar með sigri á heimavelli gegn Real Betis.

Strax á 7. mínútu kom Gavi Barca í 1-0 forystu eftir sendingu frá Ferran Torres en á 17. mínútu jafnaði Natan metin eftir sendingu frá Giovanni Lo Celso.

Þrátt fyrir að vera mikið meira með boltann skapaði Barcelona ekki mikið af færum en mögulega hefur leikurinn gegn Dortmund í Meistaradeildinni á miðvikudaginn kemur verið þeim ofarlega í huga.

Liðin þurftu að endingu að sættast á skiptan hlut og mistókst Barcelona því að ná sex stiga forystu á toppi deildarinnar. Liðið er nú með 67 stig í efsta sætinu en Real Madrid 63 í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×