HSÍ heldur úti sjónvarpsútsendingum á Handboltapassanum og hefur fylgt því gríðarlegur kostnaður að byggja þann vettvang upp.
„Núna erum við að komast á þann stað að áskrifendur eru nokkur þúsund talsins,“ segir Jón, formaður HSÍ í samtali við íþróttadeild. „Við erum komin á þann stað að það fer að gefa okkur meiri tekjur heldur en að kostnað. Ef við lítum fram veginn er bara fullt af tækifærum þar.“

Þið áætlið auknar tekjur hjá HSÍ TV upp á 34 milljónir. Að tekjurnar fari úr 36 milljónum upp í 70 milljónir. Er það raunhæf áætlun?
„Já það er bara mjög raunhæf áætlun. Þó svo að Handboltapassinn sé nýr fyrir okkur eru fyrirmyndir af þessu úti í heimi. NBA er með sinn passa til að mynda og það er bara okkar að hlúa að passanum, gera hann skemmtilegan, setja efni inn í hann sem er aðlaðandi. Þannig náum við að fjölga áskrifendum og halda áfram að byggja upp það góða starf sem hefur verið unnið í kringum passann. En það er engin launung að fyrsta árið var erfitt. Alls konar hnökrar sem komu upp. Árið í ár hefur verið miklu, miklu, miklu betra og að mörgu leiti mjög gott. Úrslitakeppnin okkar er nú öll tekin upp á sjónvarpsvélum og öll gæði því mikil. Þetta lítur vel út.“
Kostnaður var hins vegar van áætlaður um 31 milljón. Fóru menn fram úr sér með þessum mikla kostnaði?
„Ég get ekki sagt neitt til um það núna. Ég er búinn að vera einn dag í embætti, er að setjast niður og er að fara að kryfja þetta. Talaðu við mig aftur eftir nokkra mánuði, þá skal ég svara þessari spurningu.“