PSG vann 3-1 sigur á Aston Villa á meðan Barcelona rústaði Borussia Dortmund, 4-0.
Villa náði forystunni á Parc des Princes í gær þegar Morgan Rogers skoraði á 35. mínútu. Aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Désiré Doué metin með mögnuðu skoti. Staðan í hálfleik var 1-1.
Á 49. mínútu kom Khvicha Kvaratskhelia PSG yfir eftir góðan sprett og frábært skot. Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Nuno Mendes svo þriðja mark frönsku meistaranna. Þeir eru því í afar góðri stöðu fyrir seinni leikinn á Villa Park á þriðjudaginn.
Brasilíumaðurinn Raphinha hefur verið magnaður í Meistaradeildinni í vetur og hann kom Barcelona á bragðið gegn Dortmund í gær. Á 25. mínútu skoraði hann með skoti af örstuttu færi og skoraði sitt tólfta mark í Meistaradeildinni á tímabilinu. Hann er markahæsti leikmaður hennar.
Á 48. mínútu lagði Raphinha upp mark fyrir Robert Lewandowski og Pólverjinn skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Börsunga á 66. mínútu. Lewandowski hefur skorað fjörutíu mörk í öllum keppnum á tímabilinu.
Ungstirnið Lamine Yamal gerði svo fjórða mark Barcelona á 77. mínútu eftir undirbúning Raphinhas.
Seinni leikur Barcelona og Dortmund fer fram á Signal Iduna Park á þriðjudaginn. Sigurvegari einvígisins mætir Bayern München eða Inter í undanúrslitum. Í hinni undanúrslitarimmunni mætir annað hvort PSG eða Villa Arsenal eða Real Madrid.