Val­ver­de bjargaði vondri viku

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Valverde steig upp þegar mest á reyndi.
Valverde steig upp þegar mest á reyndi. Maria Gracia Jimenez/Soccrates/Getty Images

Lengi getur vont versnað ogþannig leit það lengi vel út fyrir Real Madríd í kvöld. Eftir að falla úr Meistaradeild Evrópu með skömm virtust Spánarmeistararnir einnig vera að missa Barcelona lengra fram úr sér, allt þangað til Federico Valverde steig upp í blálokin.

Real Madríd er enn ríkjandi Evrópu- og Spánarmeistari. Það er ljóst að liðið mun ekki verja Evróputitil sinn – sem er það mikilvægasta fyrir félagið – en það getur enn staðið uppi sem Spánarmeistari og jafnvel kryddað það með sigri í bikarkeppninni. Það sem gerir bikarinn enn áhugaverðari er að Real mætir Barcelona í úrslitum.

Hvað leik kvöldsins varðar þá voru leikmenn Real hugmyndasnauðir og áttu engin svör við öflugri vörn gestanna, sem er sú besta í efstu deild Spánar á þessari leiktíð. Heimamenn sáu vissulega um að sækja á meðan Bilbao virtist einkar ánægt með að fara með eitt stig heim úr höfuðborginni.

Þegar tæpar tíu mínútur lifðu leiks hélt Vinícius Júnior að hann hefði tryggt Real stigin þrjú en markið var dæmt af eftir að myndbandsdómari leiksins skoðaði það betur. Þarna virtist öll von úti en einn maður var á öðru máli. Sá kemur frá Úrúgvæ og lék í stöðu hægri bakvarðar í kvöld, það héldu honum hins vegar engin bönd og var hann út um allan völl.

Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þegar boltinn féll fyrir fætur Valverde rétt fyrir utan teig. Þau sem hafa séð hann spila vita að hann veigrar sér ekki frá því að þruma á markið og það var nákvæmlega það sem hann gerði. Boltinn flaug upp í markhornið vinstra megin og söng í netinu, óverjandi fyrir landsliðsmarkvörð Spánar Unai Simon í marki Bilbao.

Lokatölur 1-0 og heldur Real í við Barcelona sem vann ótrúlegan 4-3 sigur á Celta Vigo í gær, laugardag. Þegar sex umferðir eru eftir af La Liga er Barcelona á toppnum með 73 stig á meðan Real Madríd er með 69 stig í 2. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira