Enski boltinn

Leið eins og BBC vildi losna við hann úr Match of the Day

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eftir að hafa stýrt Match of the Day frá 1999 lýkur þeim kafla hjá Gary Lineker í vor.
Eftir að hafa stýrt Match of the Day frá 1999 lýkur þeim kafla hjá Gary Lineker í vor. getty/Andrew Kearns

Gary Lineker leið eins og BBC vildi losna við hann úr Match of the Day. Hann hættir að stýra þættinum fræga eftir tímabilið.

Í nóvember á síðasta ári greindi Lineker frá því að hann myndi stíga til hliðar sem þáttastjórnandi Match of the Day í vor. Hann hefur stýrt þættinum í 26 ár.

Aðspurður um ástæðu þess að hann ákvað að hætta með Match of the Day sagði Lineker að honum hafi liðið eins og BBC vildi losna við hann úr þættinum.

„Kannski því þeir vildu að ég færi. Þannig var tilfinningin,“ sagði Lineker í samtali við BBC.

„En það er kominn tími á þetta. Ég hef gert þetta í langan tíma og þetta hefur verið frábært,“ bætti gamli framherjinn við.

Frá og með næsta tímabili munu þau Kelly Cates, Mark Chapman og Gabby Logan skiptast á að stýra Match of the Day.

Þótt Lineker sé að hætta með Match of the Day mun hann starfa áfram fyrir BBC. Hann mun til að mynda stýra umfjöllun breska ríkisútvarpsins um ensku bikarkeppnina og heimsmeistaramótið.

„Ég held að þeir hafi ekki viljað að ég væri með Match of the Day í eitt ár í viðbót svo þeir gætu komið með nýtt fólk inn. Svo það er frekar óvenjulegt að ég muni stýra umfjöllun um ensku bikarkeppnina og HM en ef ég á að vera hreinskilinn er það staða sem hentar mér fullkomlega,“ sagði Lineker.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×