Enski boltinn

Villa mót­mælir fyrir­hugaðri breytingu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Tottenham Hotspur og Aston Villa fyrr á leiktíðinni.
Úr leik Tottenham Hotspur og Aston Villa fyrr á leiktíðinni. Malcolm Couzens/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Aston Villa mótmælir fyrirhugaðri breytingu úrvalsdeildarinnar á leikdegi félagsins gegn Tottenham Hotspur. Leikurinn á að fara fram sunnudaginn 18. maí en í yfirlýsingu Tottenham segir að félagið hafi þegar rætt við úrvalsdeildina um að færa leikinn.

Það er The Athletic sem greinir frá. Í frétt miðilsins segir að lærisveinar Ange Postecoglou séu komnir í undanúrslit Evrópudeildarinnar og mæti þar norska spútnikliðinu Bodo/Glimt. Úrslitaleikur Evrópudeildar er aðeins þremur dögum á eftir leik Villa og Tottenham.

Unai Emery og hans menn í Villa vilja ekki færa leikinn þar sem liðið er í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Verði leikurinn færður þá myndi það þýða styttri endurheimt á milli mikilvægra leikja hjá Villa-liðinu.

Sem stendur situr Villa í 7. sæti en þó aðeins þremur stigum frá Chelsea sem er í 5. sætinu. Næsta öruggt er að fimm efstu lið ensku úrvalsdeildarinnar muni fara í Meistaradeildina á næstu leiktíð.

Villa tekur á móti Fulham þann 3. maí, heimsækir Bornemouth viku síðar áður en Tottenham á að koma í heimsókn 18. maí. Í lokaumferðinni fer Villa svo á Old Trafford í Manchester.

Tottenham fær Bodo/Glimt í heimsókn 1. maí, heimsækir nágranna sína í West Ham United 4. maí og fer svo til Noregs þann 8. maí. Þremur dögum síðar kemur Crystal Palace í heimsókn og viku eftir það mætir Tottenham á Villa Park. Liðið endar svo með heimaleik gegn Brighton & Hove Albion.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×