Upp­gjörið: ÍBV - Vestri 0-2 | Vestramenn aftur á toppinn

Kári Mímisson skrifar
Daði Berg lagði upp annað mark Vestra. 
Daði Berg lagði upp annað mark Vestra.  vísir / anton brink

Vestramenn gerðu góða ferð til Vestmannaeyja og unnu 0-2 útisigur á ÍBV í fyrsta leik fimmtu umferðar Bestu deildar karla. Leikið var við kjöraðstæður á Þórsvelli í Vestmannaeyjum. Með sigrinum komst Vestri á topp deildarinnar en Breiðablik og Víkingur eiga þó leik til góða.

Það var mikið jafnræði með liðunum framan af leik og fátt um fína drætti. Bæði lið mættu þó af miklum krafti til leiks og spjöldin fengu heldur betur að fljúga í fyrri hálfleiknum.

Eftir afar tilþrifa lítinn fyrri hálfleik tókst gestunum að skora rétt áður en flautað var til hlés og það gerði Vladimir Tufegdzic með góðum skalla. Túfa var að leika sinn hundraðasta leik í efstu deild og ekki amalegt að skora í honum. Eftir langt innkast Vestra barst boltinn út til fyrirliðans, Morten Hansen, sem átti frábæra fyrirgjöf sem Túfa skallaði meistaralega í netið.

Aðeins örfáum mínútum seinna fékk svo Daði Berg Jónsson úrvals tækifæri til að tvöfalda forystu Vestra. Aftur var það Morten Hansen sem fékk boltann úti hægra megin og gaf fyrir markið en því miður fyrir Daða og lið Vestra tókst honum ekki að stýra boltanum að markinu úr sannkölluðu dauðafæri. Staðan 1-0 fyrir gestina þegar haldið var inn til búningsherbergja.

Seinni hálfleikur einkenndist mest af því að Eyjamenn héldu meira í boltann og freistuðu þess að jafna leikinn á með Vestri lá í skotgröfunum og varðist.

Í þó nokkur skipti fengu heimamenn ákjósanleg tækifæri til að jafna leikinn en það besta fékk Sigurður Arnar Magnússon. Varamaðurinn Víðir Þorvarðarson átti þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Vestra þar sem Sigurður Arnar var einn og óvaldaður en tókst ekki að skalla boltann af nógu miklum krafti og Guy Smith í marki Vestra varði vel.

Á lokamínútum leiks dró til tíðinda. Eyjamenn voru búnir að fjölmenn fram á völlinn en Vestri náði einum bolta inn fyrir vörn ÍBV þar sem þeir Marcel Zapytowski og Mattias Edeland gera sig báðir sekir um slæm mistök. Edeland var ekkert að spá í Kristoffer Grauberg sem freistaði þess að vinna boltann en í staðinn skallar hann boltann til baka á Marcel sem var kominn í skógarhlaup út úr teignum.

Boltinn fer klárlega í höndina á Marcel og þaðan til Daða Bergs sem finnur Gunnar Jónas Hauksson sem skorar í tómt markið. Fleira markvert gerðist ekki í leiknum og niðurstaðan sú að Vestri heldur heim á Ísafjörð með stigin þrjú.

Atvik leiksins

Það verður að vera seinna mark Vestra. Edeland og Marcel koma sér þarna í allskonar vesen og í rauninni er Marcel bara stál heppinn að fá ekki rautt spjald. Hefði Gunnar Jónas ekki skorað þá erum við væntanlega að tala um rautt. Stórglæsileg tilþrif annars hjá Þórði og hans mönnum að leyfa þessu að rúlla.

Stjörnur og skúrkar.

Allt lið Vestra var flott dag. Anton Kralj var þó fremstur meðal jafningja og hann er heldur betur að reynast Davíð Smára og félögum vel þessar fyrstu umferðir. Skúrkur leiksins verður að vera sá sem stjórnar föstu leikatriðum ÍBV. Eyjamenn fengu einhverjar 10 hornspyrnur í leiknum og þær voru hver annarri verri. Ég trúi ekki öðru en að Stúkumenn fari yfir þetta í þætti sínum á morgun.

Dómarinn

Þórður og hans teymi koma hrikalega vel frá þessum leik sem var ekki auðveldur að dæma. 10 spjöld fóru á loft og þá vildu Eyjamenn nokkrum sinnum fá víti fyrir litlar sakir. Einhverjir myndu tala um að þeir hefðu verið með þennan leik í teskeið og ég verð að vera sammála því.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira