Sjö marka leikur í Lundúnum og enn eitt tap United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Schade er kominn með tíu mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Kevin Schade er kominn með tíu mörk í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. getty/Alex Pantling

Kevin Schade skoraði tvö mörk þegar Brentford lagði Manchester United að velli, 4-3, í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Þetta var þriðji sigur Brentford í röð en liðið er í 10. sæti deildarinnar. United er í 15. sætinu og hefur ekki unnið í sex deildarleikjum í röð.

United vann 0-3 sigur á Athletic Bilbao á fimmtudaginn og Ruben Amorin, knattspyrnustjóri Rauðu djöflanna, tefldi fram mikið breyttu liði í dag.

Einn þeirra sem kom inn í byrjunarlið United, Mason Mount, kom liðinu yfir á 14. mínútu.

Á 27. mínútu varð Luke Shaw fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark og staðan því orðin 1-1.

Schade kom Brentford yfir á 33. mínútu með skalla á fjærstöng. Hann skoraði svo annað keimlíkt mark á 70. mínútu.

Fjórum mínútum síðar skoraði Yoane Wissa fjórða mark Brentford þegar hann setti boltann í netið af stuttu færi eftir sendingu frá Michael Kayode. Wissa hefur átt gott tímabil og skorað átján mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Alejandro Garnacho lagaði stöðuna fyrir United með laglegu marki á 82. mínútu. Þegar fimm mínútur voru til leiksloka hleypti Amad Diallo leiknum svo upp í háaloft þegar hann skoraði sitt sjöunda deildarmark á tímabilinu. Nær komst United hins vegar ekki.

Lokatölur 4-3, Brentford í vil og United hefur núna tapað sextán deildarleikjum í vetur.

Brentford er í 9. sæti deildarinnar með 52 stig, einu stigi frá 8. sætinu sem gæti gefið Evrópusæti á næsta tímabili.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira