Erlent

Birti mynd af sér í páfaskrúða

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Myndin er gerð með aðstoð gervigreindar.
Myndin er gerð með aðstoð gervigreindar. Donald Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti birti í gær mynd af sér á samfélagsmiðlum klæddum páfaskrúða. Kaþólikkar sem og aðrir hafa tekið misvel í þetta uppátæki hans og þykir mörgum hann vanvirða minningu Frans páfa sem féll frá nýlega.

Forsetinn birti myndina á eigin samfélagsmiðli en hún virðist gerð með hjálp gervigreindar. Á myndinni situr forsetinn í hásæti íklæddur páfaskrúða, með mítur á höfði og með gullkross um hálsinn.

Hann sagðist aðspurður í vikunni gjarnan vilja verða næsti páfi. Hann sagði sig sjálfan vera sitt „fyrsta val“ en ljóst þykir að það hafi verið í kímni. Við það bætti hann að í New York væri kardináli sem hann þætti „mjög góður.“ Þar er líklegt að hann eigi við Timothy Dolan, erkibiskup í New York, sem er meðal þeirra sem þykja líklegir til að taka við völdum í Páfagarði.

Frans páfi lést 21. apríl síðastliðinn og þing kardinála kemur saman sjöunda maí til að velja arftaka hans.

Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Repúblikana, tók vel í hugleiðingar Bandaríkjaforseta um mögulegt framboð hans til embættis páfa. Hann segist spenntur fyrir hugmyndinni.

„Hann væri sannarlega spútnikframbjóðandi en ég bið kardinálaráðið og kaþólska söfnuðinn að vera opin fyrir möguleikanum,“ skrifar hann í færslu á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×