Viðskipti erlent

Vilja nota geim­flaugar til að flytja her­gögn hvert sem er

Samúel Karl Ólason skrifar
Tölvuteiknuð mynd af Neutron geimflaug á braut um jörðu.
Tölvuteiknuð mynd af Neutron geimflaug á braut um jörðu. Rocket Lab

Forsvarsmenn geimferðafyrirtækisins Rocket Lab hafa gert samning við flugher Bandaríkjanna um að flytja farm með geimflaugum. Þannig á að nota eldflaug til að flytja frá einum stað á jörðinni til annars á einstaklega stuttum tíma, mögulega í neyðartilfellum.

Notast á við Neutron-eldflaugar Rocket Lab en það eru geimflaugar sem hannaðar eru til að lenda aftur á jörðu niðri. Slíka geimflaugar eru til, og má þar helst nefna Falcon 9 flaugar SpaceX, en þær lenda oftar en ekki á sama stað og þeim var skotið á loft eða á drónaskipi undan ströndum Flórída.

Starfsmenn Rocket Lab munu vinna að því að þróa tækni til að nota Neutron geimflaugar til að flytja allt að þrettán tonn af hergögnum og/eða birgðum hvert sem er á jörðinni á einungis nokkrum klukkustundum.

Sem dæmi má nefna að hægt væri að nota þessa tækni til að senda hergögn eins og skotfæri til umkringdra hermanna hvar sem er í heiminum með litlum fyrirvara.

Vonast er til að framkvæma fyrsta tilraunaskotið á næsta ári.

Neutron eldflaugarnar eru hannaðar með aukna samkeppni við SpaceX í huga. Með því að endurnýta geimflaugar er hægt að draga verulega úr kostnaði við geimferðir.

Sjá einnig: Rocket Lab ætlar í aukna samkeppni við SpaceX með nýrri eldflaug

Í yfirlýsingu frá Rocket Lab segir að samningurinn við flugherinn feli í sér kúvendingu á markaði geimferða og muni bæta hernaðarbirgðanet Bandaríkjanna til muna.

Peter Beck, stofnandi fyrirtækisins, segir samninginn til marks um trúa forsvarsmanna flughers Bandaríkjanna á getu Neutron. Geimflaugin muni marka tímamót vegna mikillar getu, lítils kostnaðar og áreiðanleika.

Eftir að eldflauginni er skotið á loft, á nef hennar að opnast og farmurinn sendur af stað. Þá á nefið að lokast aftur fyrir lendingu og þannig á að lenda allri eldflauginni aftur í heilu lagi. Því næst á að vera hægt að fylla aftur á hana eldsneyti, koma fyrir nýjum farmi og vonast sérfræðingar Rocket Lab til að hægt verði að skjóta Neutron aftur út í geim á einum sólarhring.

Eldflaugin hefur ekki enn tekið á loft en til stendur að reyna það í fyrsta sinn á þessu ári. Þá á að skjóta eldflaug á loft frá Virginíu í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Reyna að sigla um geiminn á geislum sólarinnar

Starfsmenn geimferðafyrirtækisins Rocket Lab skutu í kvöld litlu geimfari út í geim, sem nota á til að kanna nýja en í senn mjög gamla tækni. Vísindamenn Geimvísindastofnunnar Bandaríkjanna (NASA) vilja nota þetta geimfar til að kanna hvort hægt sé að sigla um sólkerfið okkar og jafnvel út fyrir það á geislum sólarinnar.

Bein útsending: Reyna að grípa eldflaug með þyrlu

Starfsmenn fyrirtækisins Rocket Lab ætla í dag að reyna að grípa eldflaug með þyrlu. Eldflauginni verður skotið frá Nýja-Sjálandi og á hún að koma smáum gervihnetti á braut um jörðu fyrir sænskt fyrirtæki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×