Viðskipti innlent

Lands­bankinn við Austur­stræti falur

Árni Sæberg skrifar
Landsbankahúsið við Austurstræti er eitt glæsilegasta hús miðborgarinnar.
Landsbankahúsið við Austurstræti er eitt glæsilegasta hús miðborgarinnar. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hefur auglýst hús bankans við Austurstræti 11 og Hafnarstræti 10, 12 og 14 í Reykjavík til sölu. Óskað er eftir tilboðum í húsin sem verða aðeins seld í einu lagi.

Í tilkynningu þess efnis á vef Landsbankans segir að heildarstærð húsanna sé 5.836 fermetrar og þar ef séu 1.380 fermetrar í kjallara.

Friðað að hluta

Landsbankahúsið við Austurstræti 11 sé eitt glæsilegasta hús borgarinnar. Húsið hafi verið reist árið 1898 en verið endurbyggt og stækkað árið 1924 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar sem hafi jafnframt teiknað allar innréttingar. Viðbygging við húsið hafi verið tekin í notkun árið 1940. Austurstræti 11 hafi verið friðað árið 1991 og friðunin nái yfir ytra byrði hússins, vegglistaverk og innréttingar sem voru gerðar árið 1924.

Hafnarstræti 10-12 hafi áður gengið undir nafninu Edinborgarhúsið og verið byggt árið 1923 eftir uppdráttum Einars Erlendssonar. Húsið hafi upphaflega verið þrjár hæðir en fjórðu hæðinni hafi síðar verið bætt ofan á. Hafnarstræti 14 hafi verið reist árið 1970. Jarðhæðin sé tengd við afgreiðslusal Austurstrætis 11.

Ríkið hætt við að kaupa

Landsbankinn flutti árið 2023 starfsemi sína úr alls 12 húsum við Austurstræti, Hafnarstræti og Tryggvagötu yfir í ný húsakynni við Reykjastræti 6. Íslenska ríkið lýsti á sínum tíma yfir áhuga á að kaupa Austurstræti 11 en nú er ljóst að ekki verður af kaupunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×